Fótbolti

Líkir félagaskiptum Neymars við það þegar Figo fór til Real Madrid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luís Figo og Neymar.
Luís Figo og Neymar. vísir/getty
Joan Gaspart, fyrrverandi forseti Barcelona, segir að yfirvofandi félagaskipti Neymars til Paris Saint-Germain megi líkja við það þegar Luís Figo fór frá Barcelona til Real Madrid fyrir metfé árið 2000.

Félagaskipti Figos voru afar umdeild enda ekki algengt að menn fari frá Barcelona til Real Madrid eða öfugt. Figo var kallaður svikari af stuðningsmönnum Barcelona og í öðrum leik hans með Real Madrid á Nývangi, heimavelli Barcelona, var svínshöfði kastað að honum.

„Ég hef séð svipaðar aðstæður en Neymar er á sama stað og Figo var,“ sagði Gaspart sem var forseti Barcelona þegar Figo var seldur til Real Madrid.

„Ég hef séð frábæra leikmenn eins og Diego Maradona og Ronaldo, sem voru betri en Neymar, yfirgefa Barcelona því önnur félög borguðu riftunarverð þeirra. En þeir fóru með reisn og án þess að búa til svona mikið vesen. Ég hef ekki verið hrifinn af viðhorfi Neymars gagnvart félaginu, stuðningsmönnunum og samherjum hans,“ bætti Gaspart við.

Talið er að PSG ætli að borga 198 milljónir punda fyrir Neymar sem yrði þá langdýrasti fótboltamaður allra tíma.

Það verður þó einhver bið á því að félagaskiptin gangi í gegn því forráðamenn La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar, gáfu ekki grænt ljós á söluna. Þeir telja að PSG brjóti reglur UEFA um háttvísi í rekstri.

Figo og svínshöfuðið.vísir/getty

Tengdar fréttir

Mourinho: Neymar er ekki dýr

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Brasilíumaðurinn Neymar sé ekki dýr.

Klopp: Börsungar geta sparað sér ómakið

Eftir 3-0 sigur Liverpool á Bayern München á Audi Cup í gær ítrekaði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, að Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho væri ekki til sölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×