Danilo Gallinari, leikmaður Los Angeles Clippers og ítalska landsliðsins, verður ekki með á EM í körfubolta sem hefst eftir nákvæmlega mánuð.
Ítalía mætti Hollandi í æfingaleik í gær. Gallinari var eitthvað illa fyrir kallaður og brást illa við eftir að hafa fengið högg frá Jito Kok.
Gallinari réðist á Kok og gaf honum einn á lúðurinn. Hann hefði betur sleppt því enda meiddist hann á þumalfingri við það.
Gallinari þarf ekki að fara í aðgerð en verður þó ekki orðinn klár í tæka tíð fyrir EM. Hann ætti þó að vera tilbúinn í slaginn þegar tímabilið í NBA-deildinni hefst í haust.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leikmaður Clippers meiðist við að kýla mann. Á síðasta ári meiddist Blake Griffin á hendi eftir að hafa kýlt starfmann Clippers.
