Flokkur fólksins mælist nú með 6,1 prósenta fylgi samkvæmt nýjustu könnun MMR. Fylgi flokksins hefur aldrei mælst jafn hátt. Flokkurinn mældist 2,8 prósent í síðustu könnun sem gerð var í júní.
Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar með mest fylgi íslenskra flokka. Mældist hann 29,3 prósent og eykst því fylgi hans um eitt prósentustig frá síðustu könnun. Fylgi við ríkisstjórnina hefur hækkað á milli mælinga úr 33,9 prósentum í 34,1 prósent.
Vinstri Græn eru næst stærsti flokkurinn með 20,4 prósent. Píratar koma þar á eftir með 13,3 prósent en fylgi þeirra hefur ekki breyst frá síðustu könnun. Samfylkingin mælist með 10,6 prósent og Framsókn með 10,2 prósent.
Ríkisstjórnarflokkurinn Viðreisn er með 4,7% og Björt framtíð er með 2,4% fylgi.
Núverandi könnun fór fram dagana 18 til 21 júlí. Alls svöruðu 909 einstaklingar.
