Körfubolti

Tók Durant bara tvo leiki að skora meira en Barnes gerði í öllu úrslitaeinvíginu í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant.
Kevin Durant. Vísir/Getty
Golden State warriors er komið í 2-0 á móti Cleveland Cavaliers í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar og enginn hefur spilað betur í þessum fyrstu tveimur leikjunum en Kevin Durant.

Golden State missti niður 3-1 forystu á móti Cleveland í fyrra og þar með titilinn til LeBron James og félaga. Stærsta breytingin á liði Golden State frá því í fyrra er að nú byrjar Kevin Durant sem lítill framherji í stað Harrison Barnes sem var í byrjunarliðinu í fyrra.





Kevin Durant hefur verið frábær í fyrstu tveimur leikjum úrslitaeinvígisins þar sem hann er með 35,5 stig, 11,0 fráköst, 7,0 stoðsendingar og 2,5 varin skot að meðaltali í leik. Durant hefur hitt úr 56 prósent skota sinna utan af velli, 50 prósent þriggja stiga skota sinna og svo 91 prósent vítaskotanna.

Það efast enginn um að Kevin Durant sé mun betri leikmaður en Harrison Barnes sem fór frá Golden State síðasta sumar og samdi við Dallas Mavericks.

Það er samt gott dæmi um aukið framlag með komu Durant að hann er þegar búinn að skora meira, gefa fleiri stoðsendingar, fá fleiri víti og verja fleiri skot en Harrison Barnes í öllum sjö leikjum úrslitaeinvígisins í fyrra.





Harrison Barnes var þá „bara“ með 9,3 stig, 4,4 fráköst, 1,4 stoðsendingar og 0,4 varin skot að meðaltali í leik. Hann hitti auk þess aðeins úr 35 prósent skota sinna.

Það besta við komu Kevin Durant er að Steph Curry hefur spilað vel við hlið hans og þeir eru búnir að mynda svakalegt tvíeyki sem er nánast ómögulegt að stoppa.

Næsti leikur Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers fer fram annað kvöld en sá verður spilaður á heimavelli Cleveland. Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni á Stöð 2 Sport frá eitt eftir miðnætti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×