Búningar liðanna í NBA-deildinni í körfubolta hafa verið afar mismunandi í gegnum tíðina og mörg félög hafa gengið í gegnum hverja breytinguna á fætur annarri.
Körfuboltaáhugafólk á sér örugglega sinn uppáhaldsbúning hjá sínu félagi eða sínum leikmanni og margir hafa verslað sér slíkan búning á ævinni.
En hver er sá besti frá upphafi? ESPN lét á þetta reyna og valdi besta NBA-búning allra tíma og birti umfjöllun um valið á heimasíðu sinni.
Fyrir valinu varð búningur San Francisco Warriors seint á sjöunda áratugnum. Hvort sem það var vegna skorts á litmyndum í ljósmyndasafni ESPN þá var besti búningur allra tíma sýndir í svarthvítu.
San Francisco Warriors búningurinn var með Golden Gate brúna framan á sér og hann var einnig merktur „The City“. San Francisco Warriors varð eins og kunnugt er að Golden State Warriors árið 1971.
Í öðru sæti varð síðan mjög litríkur búningur New York Nets á áttunda áratugnum þegar Dr. J, Julius Erving, var í aðalhlutverki hjá liðinu og í þriðja sæti lenti síðan búningur Atlanta Hawks á níunda áratugnum þegar Dominique Wilkins bauð upp á hvern tilþrifapakkann á fætur öðrum.
Allir búningar Boston Celtics liðsins í sögunni tóku síðan fjórða sætið á undan Washington Bullets búningunum á áttunda áratugnum.
Eini núverandi búningurinn sem kemst inn á topp tíu listann er búningur Phoenix Suns. Það freistast eflaust margir að kaupa hann enda liðið uppfullt af ungum framtíðarstjörnum NBA-deildarinnar.
Það er hægt að sjá umfjöllun ESPN um bestu búningana með því að smella hér.
