Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Valur 1-0 | Valsmenn stöðvaðir í Grindavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. Vísir/Eyþór
Grindavík gerði sér lítið fyrir og skellti Val, öðru toppliði Pepsi-deildar karla, á heimavelli í kvöld. Andri Rúnar Bjarnason skoraði eina mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks eftir mistök Antons Ara Einarssonar í marki Vals.

Grindavík hafði fengið fleiri færi í fyrri hálfleik og var því forysta þeirra gulklæddu ekki óverðskulduð. Valsmönnum virtust mislagðir fætur en þeir sóttu þó stíft að marki Grindavíkur undir lok leiksins, án þess þó að skora.

Þetta var fyrsta tap Vals í sumar en eftir leikinn eru bæði lið nú með tíu stig í efri hluta deildarinnar.

Eftir góða byrjun Valsmanna, þar sem þeir virtust vera með góð tök á leiknum, komust heimamenn sífellt betur í takt við gang leiksins. Og það voru heimamenn sem áttu hættulegri færi í fyrri hálfleiknum, sérstaklega á síðasta stundarfjórðungnum.

Milos Zeravica fékk dauðafæri á markteig en skallaði framhjá og markahrókurinn Andri Rúnar tvö fín færi stuttu síðar, sérstaklega það fyrra en hann komst einn í gegn en í bæði skiptin lét hann Anton Ara verja frá sér.

Rétt eins og í fyrri hálfleik byrjuðu Valsmenn ágætlega í þeim síðari en þeim var svo snarlega kiptt niður á jörðina þegar Gunnar Þorsteinsson gaf langa sendingu fram á Andra Rúnar. Hann hafði betur í baráttunn við Hauk Pál Sigurðsson, fyrirliða Vals, og nýtti sér klaufaleg mistök í úthlaupi Antons Ara. Eftirleikurinn var auðveldur, hann renndi boltanum í autt markið.

Valsmenn sóttu mikið síðustu 30 mínútur leiksins, eftir að skiptingar Ólafs Jóhannessonar fóru að bera árangur. Það vakti athygli að Dion Acoff byrjaði á bekknum í kvöld en hann átti ágæta innkomu, án þess þó að skapa almennilegt færi fyrir gestina.

Þvert á móti fengu Grindvíkingar tvö bestu færi síðari hálfleiks, fyrir utan markið, á lokamínútunum þegar Valsmenn höfðu hent öllu sínu fram. En ekki færðu sér þeir það í nyt.

Umdeildasta atvik leiksins kom á 70. mínútu, er Aron Freyr Róbertsson braut á Sigurði Agli Lárussyni sem var að sleppa í gegn. Þorvaldur Árnason, dómari leiksins, benti fyrst á vítapunktinn en skipti svo um skoðun eftir ábendingu aðstoðardómara og dæmdi brotið utan teigs. Valsmenn töldu sig eiga meira skilið og mótmæltu kröftuglega.

Af hverju vann Grindavík?

Nýliðarnir unnu óvæntan og frábæran sigur á sterku liði Vals í kvöld, fyrst og fremst á mikilli vinnusemi og dugnaði. Aftasta varnarlínan hélt frábærlega í kvöld, með Kristijan Jajalo öflugan í markinu og vinnuþjarkinn Gunnar Þorsteinsson óþreytandi á miðjunni. Það skemmir svo ekki fyrir að eiga sjóðheitan framherja sem skorar sigurmarkið eftir skyndisókn, þó svo að hann hefði vissulega farið illa með góð færi í fyrri hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Gunnar átti frábæran leik og eftir að hafa hrist af sér klaufaleg mistök í upphafi leiks átti Björn Berg Bryde skínandi frammistöðu í öftustu varnarlínu. Hann var sérstaklega dýrmætur þegar Valsmenn sóttu stíft í síðari hálfleik. Jajalo var öflugur í markinu og það mætti telja fleiri upp - Grindavíkur liðið átti einfaldlega góðan dag.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Vals. Gestirnir voru afar bitlausir fram á við og frammistaða lykilmanna í sókn hlýtur að valda þjálfarateymi Vals áhyggjum. Kristinn Ingi átti ekki sinn besta dag en hann fékk þar að auki lítinn stuðning. Valsmenn voru ólíkir sjálfum sér í þessum leik en ætli þeir sér að blanda sér í titilbaráttuna í sumar þurfa þeir að vera miklu betri fram á við.

Hvað gerist næst?

Það er bikarumferð fram undan og bikarmeistarar Vals eiga erfiðan leik gegn sterku liði Stjörnunnar í stórleik umferðarinnar. Þeir verða að gleyma þessu tapi sem fyrst ætli þeir sér að fara alla leið í bikarnum, enn á ný. Grindavík mætir Leikni Reykjavík í bikarnum en á svo erfiðan útileik gegn KR í næstu umferð Pepsi-deildarinnar.

Einkunnir

Grindavík (3-4-3): Kristijan Jajalo 7 - Björn Berg Bryde 7, Matthías Örn Friðriksson 7, Jón Ingason 6 - Aron Freyr Róbertsson 7, Milos Zeravica 6 (83. Brynjar Ásgeir Guðmundsson -), *Gunnar Þorsteinsson 8, William Daniels 6 (75. Hákon Ívar Ólafsson -) - Sam Hewson 6, Alexander Veigar Þórarinsson 5, Andri Rúnar Bjarnason 7 (75. Juan Manuel Ortiz Jumenez -).

Valur (4-3-3): Anton Ari Einarsson 5 - Arnar Sveinn Geirsson 5, Orri Sigurður Ómarsson 7, Rasmus Christiansen 6, Bjarni Ólafur Eiríksson 6 - Haukur Pál Sigurðsson 6, Einar Karl Ingvarsson 5 (75. Dion Acoff -), Guðjón Pétur Lýðsson 5 - Sveinn Aron Guðjohnsen 5 (75. Nicolas Bogild -), Sigurður Egill Lárusson 4, Kristinn Ingi Halldórsson 3 (61. Nikolaj Hansen 5).

Ólafur: Óþarfi að tapa þessum leik
Ólafur Jóhannesson.vísir/hanna
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, sagði að hans menn hefðu einfaldlega hitt á slæman dag þegar þeir mættu Grindvíkingum í 5. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

„Það fór ekkert endilega úrskeðis. Við mættum bara góðu liði hér í kvöld og urðum undir,“ sagði Ólafur sem var óánægður með að hafa ekki skorað í fyrri hálfleik.

„Við fengum fín færi til þess en það gekk ekki. Það var óþarfi að tapa þessum leik og við áttum það ekki skilið, tel ég. En við hittum ekki á daginn.“

Hann segist ekki hafa áhyggjur af sóknarleik sinna manna eftir frammistöðuna í dag. „Við fengum fín færi í þessum leik til að skora mörk. En það bara datt ekki núna.“

Valsmenn vildu fá vítaspyrnu þegar brotið var á Sigurði Agli í síðari hálfleiks. Brotið var dæmt en utan teigs. Ólafur sá ekki hvort að það var réttur dómur.

„Hvernig á ég að geta séð það? Það er ekki séns fyrir mig að sjá það. En dómarinn sá að þetta var utan teigs. Við verðum að treysta því.“

Andri Rúnar: Við erum ekki hættir
Andri Rúnar Bjarnason.Vísir/Andri Marinó
„Þetta var geggjað. Ógeðslega sætt,“ sagði markahetjan Andri Rúnar Bjarnason sem skoraði sigurmark Grindvíkinga gegn Val í kvöld.

„Eins og við höfum áður sagt þá höfum við bullandi trú á okkur. Við vorum hrikalega góðir í dag og fengum fullt af færum. Mér fannst við betri aðilinn í allan dag.“

Hann segist hafa fengið færi til að skora í fyrri hálfleik sem hann átti að klára. En þrátt fyrir það er niðurstaðan draumabyrjun fyrir hann og Grindavík í Pepsi-deildinni.

„Þetta er virkilega góð byrjun og ekki hægt að biðja um meira. Eða jú, reyndar. Ég er líka búinn að klúðra svolítið af færum líka. Ég get þó sætt mig við fimm mörk,“ sagði hann í léttum dúr. „Þetta er frábær byrjun og við erum ekki hættir.“

Óli Stefán: Unnum besta lið Íslands
Óli Stefán Flóventsson.vísir/ernir
Óli Stefán Flóventsson sagði mikilvægt að halda sínum mönnum í Grindavík á jörðinni eftir góðan sigur á Val í kvöld.

„Við setjum leikinn upp á ákveðinn hátt og höfum verið að byggja það upp alla vikuna. Ég er ánægður með hvernig strákarnir héldu skipulaginu því þegar öllu er á botninn hvolft þá hefðum við sannarlega getað sett fleiri mörk á þá og unnið enn sannfærandi. Þetta var framúrskarandi,“ sagði Óli Stefán.

„Lykilorðið í hálfleik var þolinmæði. Við vildum halda í skipulagið og nýta það sem við fáum.“

Hann segist sáttur við uppskeruna en bætir við að hann þurfi að halda mönnum rólegum. „Mín vinna fer nú í að halda mönnum á jörðinni. Við erum með tíu stig og það þarf að minnsta kosti tvöfalt meira en það til að hanga í deildinni.“

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því hverjir við erum og hvaðan við komum. Á hvaða ferðalagi við erum og auðvitað njótum við svona sigurs því að mínu mati er Valur besta fótboltaliðið á Íslandi í dag. Þeir minna mig á lið FH frá 2003-4, þegar Óli Jó var með þá, að vinna svona og að mínu viti nokkuð sannfærandi er frábært.“

Haukur Páll: Þetta var pjúra víti
Haukur Páll Sigurðsson.Vísir/Vilhelm
Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, segir að hans menn hefðu átt skilið að fá meira úr leiknum gegn Grindavík í kvöld.

„Við ætluðum auðvitað að vinna þennan leik og við erum svekktir með þessa niðurstöðu. En það þýðir ekkert að grenja það,“ sagði Haukur Páll.

„Við vorum töluvert meira með boltann og fengum færi til að skora í leiknum - en þeir vissulega líka. Þeir eru góðir í þessu skipulagi sínu, að liggja til baka og sækja hratt.“

Hann segir að Valsmenn hafi verið meira með boltann, sérstaklega í síðari hálfleik, og hefðu átt að skora í kvöld. „En við náðum ekki að skapa okkur nægilega hættuleg færi, sérstaklega í seinni hálfleik.“

Það var umdeilt atvik þegar það var brotið á Sigurði Agli í síðari hálfleik en brotið var dæmt utan teigs, Valsmönnum til mikillar gremju.

„Mér fannst þetta pjúra víti. Hvort sem hann byrji að brjóta utan teigs, hann kláraði það inni í teignum og þá er það víti. Þorvaldur dæmir víti en hlustar svo á mann sem er á 300 metra spretti til baka til að fylgja línu. Hann segir að þetta sé fyrir utan teig.“

„En allir í varnarlínu Grindavíkur sögðust vera heppnir þarna, held ég.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira