Körfubolti

Wall tryggði Washington sigur og oddaleik | Sjáðu sigurkörfuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wall fagnar eftir að hafa tryggt sínum mönnum sigurinn og oddaleik.
Wall fagnar eftir að hafa tryggt sínum mönnum sigurinn og oddaleik. vísir/getty
John Wall tryggði Washington Wizards sigur á Boston Celtics, 92-91, í sjötta leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildarinnar í NBA í höfuðborginni í nótt.

Al Horford kom Boston tveimur stigum yfir þegar sjö sekúndur voru til leiksloka. Washington tók leikhlé og að því loknu setti Wall niður þrist þegar 3,5 sekúndur voru eftir af leiknum. Lokaskot Isiah Thomas geigaði svo og Washington fagnaði sigri.

Liðin þurfa því að mætast í oddaleik í Boston. Sigurvegarinn í þeim leik mætir Cleveland Cavaliers í úrslitum Austurdeildarinnar.

Wall skoraði 26 stig fyrir Washington í leiknum í nótt og gaf átta stoðsendingar. Bradley Beal var stigahæstur í liði Galdramannanna með 33 stig. Markfieff Morris var með 16 stig og 11 fráköst.

Bakverðir Boston, Thomas og Avery Bradley, skoruðu 27 stig hvor. Sá fyrrnefndi gaf einnig sjö stoðsendingar. Horford skilaði 20 stigum og sex fráköstum. Boston fékk aðeins fimm stig af bekknum í leiknum í nótt og tapaði frákastabaráttunni 59-47.

Washington og Boston hafa mæst 10 sinnum í vetur og heimaliðið hefur alltaf unnið. Samkvæmt því ætti Boston því að komast áfram.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×