Alexandra prinsessa og Jefferson greifi hafa ákveðið að skilja eftir átján ára hjónaband. Frá þessu greinir í yfirlýsingu frá dönsku konungshöllinni.
Alexandra prinsessa er dóttir Benediktu prinsessu, yngri systur Margrétar Þórhildar Danadrottningar.
„Þetta er ótrúlega erfið ákvörðun. Við höfum þekkst í þrjátíu ár, en það er komið að þeim tímapunkti að við verðum að viðurkenna að við höfum vaxið hvort frá öðru,“ er haft eftir Alexöndru í yfirlýsingunni.
Alexandra prinsessa og Jefferson greifi segjast þó áfram munu standa saman í uppeldinu á börnunum, þeim Ríkarði, fæddum 1999, og Ingiríði, fæddri 2003.
Þau Alexandra og Jefferson gengu að eiga hvort annað í Gråsten höllinni árið 1998. Síðustu ár hafa þau búið í Þýskalandi.
Í frétt DR segir að þetta sé annar skilnaðurinn í dönsku konungsfjölskyldunni. Sá fyrsti var skilnaður Jóakims prins og þáverandi prinsessunnar Alexöndru árið 2005.
