Ríkin tvö eru ekki sammála um hvaða stefnu skuli taka í Sýrlandi og hefur spenna færst í samskipti ríkjanna eftir að stjórnarherinn í Sýrlandi, undir stjórn forsetans Bashar al-Assad, beitti efnavopnum í baráttu sinni gegn uppreisnarmönnum.
Fyrir fund utanríkisráðherranna sökuðu embættismenn í Hvíta húsinu rússnesk stjórnvöld um að hylma yfir efnavopnaárás Assad.
„Það er á hreinu að Rússar eru að reyna að hylma yfir hvað gerðist þarna,“ sagði embættismaður í Hvíta húsinu í samtali við Reuters. Rússar hafa stutt Assad og hafa gagnrýnt viðbrögð Bandaríkjanna við efnavopnaárásinni.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fyrirskipaði loftárás á flugvöll í Sýrlandi til þess að stjórnvöldum þar í landi fyrir efnavopnaárásina þar sem 87 létust, þar á meðal fjölmörg börn.

Pútin segir samskipti ríkjanna hafa versnað
Vladimir Putin Rússlandsforseti sagði í sjónvarpsviðtali sem birt var í dag að samskipti ríkjanna hafi versnað frá því að Trump tók við völdum í janúar.
Putin hefur sakað andstæðinga Assad í Sýrlandi um að hafa framið efnavopnaárásina og komið sök á stjórnarherinn í von um að draga Bandaríkin enn meira inn í átökin þar í landi.
Tillerson vonast til þess að viðræðurnar við kollega sinn frá Rússlandi verði árangursríkar. Ljóst er þó að mikil spenna ríkir í samskiptum ríkjanna sem eru við frostmark, á sama tíma og bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar hvort að Rússar hafi haft afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum,með það að markmiði að koma Trump til valda.