Um málið er fjallað í fjölmiðlum í Maine en hugmyndin er að kynna bjór frá Maine á nýjum mörkuðum og um leið að fá íslenskan bjór á bandarískan markað.
Sean Sullivan, framkvæmdastjóri hjá Maien Brewers’ Guild, segir verkefnið ekki auðvelt, alls ekki ódýrt og ekki sé verið að apa eftir neinum. Verið sé að fara ótroðnar slóðir.
Bjórframleiðendur í Maine vilji vera á undan tískunni og komast á evrópskan markað þar sem bjórþyrstir Evrópubúar vilja í auknum mæli drekka bandarískan bjór.

Gámurinn, sem nefndur er bjórbox (e. beer box), verður fullur af bjórkútum frá bruggverksmiðjum héðan og þaðan í Maine. Hans fyrsti viðkomustaður verður bjórhátíð í Reykjavík þann 24. júní.
Í framhaldinu verður bjórboxið, ef að líkum lætur með tómum bjórkútum, fyllt á nýjan leik en nú með íslenskum bjór. Íslenskt öl verður teigað á bjórhátíð í Portland í Maine í lok júlí.
Markmiðið er svo að halda áfram útbreiðslu bjórs í Maine í þeim borgum sem Eimskip flytur vörur til. Þær eru á fimmta tug og má sjá á kortinu hér að ofan sem fengið er af vefsíðu Eimskipa.