Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff City, er langt frá því að vera sáttur með Heimi Hallgrímsson, þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.
Warnock er ósáttur við að Aron Einar Gunnarsson hafi spilað allar 90 mínúturnar þegar Ísland vann 0-1 sigur á Írlandi á þriðjudaginn.
Og eftir leik Cardiff og Wolves í dag lét Warnock Heimi heyra það.
„Við erum ósáttir með að Aron hafi spilað allan tímann í tilgangslausum vináttulandsleik bara út af því að hann er fyrirliði. Ég sagði þjálfaranum það,“ sagði Warnock.
„Hann var þreyttur í dag og þú þarft að hafa smá heilastarfsemi þegar þú ert landsliðsþjálfari, Hann bað mig afsökunar en það telur lítið. Ég gaf honum frí í janúar til að hjálpa þeim og þeir ættu að endurgjalda greiðann,“ bætti hinn reynslumikli Warnock við.
Cardiff tapaði leiknum við Wolves 3-1. Aron spilaði allan leikinn.

