Fjallað er um þessa þróun á vef Los Angeles Times. Þar er rætt við ferðaþjónustuaðila sem segjast finna mjög fyrir því að minni eftirspurn sé eftir þjónustu þeirra. Er þar rætt við framkvæmdastjóra rútufyrirtækis sem sérhæfir sig í að selja skoðunarferðir frá Kanada til New York.
Segir hann að í venjulegum marsmánuði séu um 200-300 ferðamenn sem fari í ferðir fyrirtækisins. Það sem af er mars hafi hins vegar aðeins ellefu keypt miða í ferðir fyrirtækisins til New York. Ljóst sé að ferðamenn séu hræddir við að ferðast til Bandaríkjanna.

Ferðabann Donald Trump á ferðir ríkisborgara frá sjö ríkjum í Afríku og Miðausturlöndum hefur haft sín áhrif og þá sérstaklega frásagnir af því hvernig múslimar frá þessum ríkjum, sem og öðrum, var tekið á flugvöllum Bandaríkjanna. Voru þeir oftar en ekki teknir afsíðis í lengri tíma í yfirheyrslur án þess að hafa til saka unnið.
Skemmst er að minnast máls velska kennarans, Juhel Miah, sem var vísað frá borði flugvélar Icelandair hér á landi eftir að bandarísk yfirvöld vildu ekki leyfa honum að koma til Bandaríkjanna, án þess að gefa nánari skýringar á því.
Hagfræðistofan Tourism Economics spáir því að ferðamönnum til Bandaríkjanna muni fækka um 6,3 milljónir á árinu miðað við þau gögn sem þau hafa undir höndum frá ferðaþjónustuaðilum og flugfélögum. Reikna hagfræðingarnir með því að um 90 þúsund störf muni tapast vegna þess.
Framkvæmdastjóri Tourism Economics rekur ástæðuna til þess að ferðaþjónustufyrirtæki þrífist á því að byggja upp jákvætt orðspor fyrir áfangastaði sína. Orðræðra Trump, sem byggist á miklu leyti á því að setja Bandaríkin í fyrsta sæti, og stefna hans í innflytjendamálum, sem og öðrum málum, geri það að verkum að ferðamönnum finnist þeir ekki vera velkomnir til Bandaríkjanna.
Sjá má umfjöllun LA Times hér.