Enski boltinn

Rooney gæti misst fyrirliðabandið hjá enska landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rooney hefur skorað 53 mörk í 119 landsleikjum.
Rooney hefur skorað 53 mörk í 119 landsleikjum. vísir/getty
Dagar Waynes Rooney sem fyrirliði enska landsliðsins gætu verið taldir.

Rooney, sem er markahæsti leikmaður Englands frá upphafi, var ekki valinn í enska landsliðshópinn fyrir leikina gegn Þýskalandi og Litháen og landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate ýjaði að því hann gæti misst fyrirliðabandið.

„Fyrirliðinn er í raun sá sem er fyrirliði í næsta leik,“ sagði Southgate og bætti við að það skipti ekki öllu máli hver væri með bandið hverju sinni. Liðið gæti innhaldið marga leiðtoga og tók enska landsliðið fyrir rúmum 20 árum sem dæmi.

„Sá sem er fyrirliði í leiknum er mikilvægur en á EM 1996 var það sem Stuart Pearce, Alan Shearer, Teddy Sheringham og Paul Ince gerðu jafn mikilvægt og það sem Tony Adams gerði. Í raun var David Platt fyrirliði í upphafi mótsins en Tony tók svo við bandinu,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Að sögn Southgates var Rooney ekki ánægður með að vera ekki valinn í landsliðið. Rooney er ekki lengur fastamaður hjá Manchester United og Southgate segir að það hafi sín áhrif.

„Ef hann spilar ekki í hverri viku held ég að hann geti ekki búist við því að vera valinn,“ sagði Southgate.

Rooney tók við fyrirliðabandinu hjá enska landsliðinu af Steven Gerrard eftir HM 2014. Hann hefur skorað 53 mörk í 119 landsleikjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×