Annan leikinn í röð náði Real Madrid í stig eftir ævintýralega endurkomu.
Evrópumeistararnir lentu í miklum vandræðum gegn Las Palmas á heimavelli í kvöld en náðu samt að knýja fram jafntefli, 3-3. Á sunnudaginn lentu þeir 2-0 undir gegn Villarreal en unnu samt 2-3 sigur.
Þegar fjórar mínútur voru eftir í leiknum í kvöld var staðan 1-3, Las Palmas í vil. Þá tók Cristiano Ronaldo til sinna ráða.
Portúgalinn, sem hafði skömmu áður fengið gult spjald fyrir leikaraskap, náði í vítaspyrnu sem hann skoraði sjálfur úr. Hann jafnaði svo metin á 89. mínútu með skalla eftir hornspyrnu James Rodríguez og tryggði Real Madrid jafntefli. Lokatölur 3-3.
Isco kom Madrídingum yfir á 8. mínútu en Dominguez Tanausu jafnaði metin í 1-1 aðeins tveimur mínútum síðar og þannig var staðan í hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiks fékk Gareth Bale að líta rauða spjaldið og í kjölfarið komst Las Palmas í 1-3 með mörkum frá Jonathan Viera og Kevin-Prince Boateng. En þessi forysta dugði Las Palmas ekki til sigurs eins og áður sagði.
Real Madrid er einu stigi á eftir toppliði Barcelona en á leik til góða.

