Fótbolti

Falleg kveðja frá Gerrard til Xabi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xabi Alonso og Steven Gerrard með félögum sínum í Evrópumeistaraliði Liverpool 2005.
Xabi Alonso og Steven Gerrard með félögum sínum í Evrópumeistaraliði Liverpool 2005. Vísir/Getty
Spænski miðjumaðurinn Xabi Alonso staðfesti í dag að hann ætli að leggja skóna á hilluna í sumar en þessi magnaði leikmaður hefur átt frábæran feril sem gæti endað með nokkrum titlum til viðbótar í vor.

Xabi Alonso hélt upp á 35 ára afmæli sitt í nóvember síðastliðnum en hann hefur leikið stærsta hluta ferils síns með þremur af sigursælustu félögum í Evrópu eða Liverpool, Real Madrid og Bayern München.

Xabi Alonso lék með Liverpool frá 2004 til 2009 eða frá því að hann var 23 ára þar til að hann var 28 ára. Xabi fór frá Liverpool til Real Madrid en hefur síðan leikið með Bayern München undanfarin þrjú ár.

Stuðningsmönnum Liverpool þótti sárt að sjá á eftir Xabi Alonso á sínum tíma en hann var lykilmaður þegar liðið vann Meistaradeildina 2005.

Einn af þeim sem saknaði Xabi Alonso mikið var Steven Gerrard og hann sendi spænska miðjumanninum fallega kveðju á Instagram-síðu sinni þegar fréttist af því að Xabi væri að fara að leggja skóna á hilluna.

„Xabi, þú ert hreinræktuð gæði. Fyrirmyndardrengur innan vallar og herramaður utan hans. Það var unun að spila við hliðina á þér og ég saknaði þín á hverjum degi eftir að þú fórst. Til hamingju með fullkominn feril og gangi þér og fjölskyldu þinni vel í framtíðinni. #Goðsögn,“ skrifaði Steven Gerrard og kórónaði færsluna með hjarta- og fullkomnunarmerki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×