Barcelona er enn eina ferðina komið í undanúrslit spænska konungsbikarsins.
Í kvöld unnu Börsungar 5-2 sigur á Real Sociedad á Nývangi. Barcelona vann fyrri leik liðanna 1-0 og einvígið því samanlagt 6-2.
Leikmenn með eftirnafnið Suárez skoruðu þrjú af mörkum Barcelona í kvöld. Denis Suárez kom Börsungum á bragðið á 17. mínútu og það reyndist eina mark fyrri hálfleiks.
Lionel Messi kom Barcelona í 2-0 með marki úr vítaspyrnu á 55. mínútu en Juamni minnkaði muninn sjö mínútum síðar. Gleði Baskanna var þó skammvinn því aðeins mínútu síðar lagði Messi upp mark fyrir Luis Suárez.
Willian Jose minnkaði muninn í 3-2 en Arda Turan og Denis Suárez skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og tryggðu Barcelona 5-2 sigur.
Auk Barcelona eru Alaves, Atlético Madrid og Celta Vigo komin í undanúrslit spænska konungsbikarsins.

