Framherjinn kom inn á sem varamaður á 59. mínútu og skoraði fimm mínútum síðar þegar hann fylgdi eftir skoti Björns Daníels Sverrissonar. Ekki flókið fyrir Kjartan Henry að renna boltanum yfir línuna en hann var réttur maður á réttum stað.
„Það var mikilvægt fyrir okkur að ná inn marki,“ sagði Kjartan Henry í sjónvarpsviðtali eftir leik en hann var sýndur beint á Stöð 2 Sport HD. Úrslitaleikurinn verður einnig í beinni útsendingu á sunnudaginn.
Vesturbæingurinn er ánægður með umgjörðina í Kína en 60.000 manns voru á leiknum í gær og vel hefur farið um strákana okkar.
„Hér er allt bara frábært og umgjörðin glæsileg. Fótboltinn er mjög vinsæll í Kína þessa stundina,“ sagði Kjartan Henry sem var svo spurður um hið unga lið Kína sem er með 16 nýliða í 23 manna hóp.
„Þetta eru leikmenn sem hafa ekki spilað mikið saman en þeir eru með alveg frábæran þjálfara,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason.