Innlent

Náttúruperlan Fjaðrárgljúfur auglýst til sölu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fjaðrárgljúfur er eitt fegursta gljúfur landsins og aðsókn eftir því.
Fjaðrárgljúfur er eitt fegursta gljúfur landsins og aðsókn eftir því. vísir/vilhelm
Jörðin Heiði í Skaftárhreppi á Suðurlandi hefur verið sett á sölu, en hluti einnar helstu náttúruperlu landsins, Fjaðrárgljúfurs, fylgir kaupunum. Um er að ræða um það bil 335 hektara land sem er að mestu gróið og án alls húsakosts.

Magnús Leópoldsson, fasteignasali hjá Fasteignamiðstöðinni, sem heldur utan um söluna, segir að óskað sé eftir tilboðum í jörðina, og að ekkert lágmarksverð liggi fyrir. Hins vegar séu jarðir sem þessar að seljast nokkuð dýrt og aðspurður segir hann þær sjaldnast fara á minna en hundrað milljónir króna.

Fjaðrárgljúfur er eitt fegursta gljúfur landsins og aðsókn eftir því. Gljúfrið er á mörkum Heiðar og jarðarinnar Holts. „Eigendur jarðanna eiga hvorn sinn hlutann í gljúfrinu, í raun eiga þeir bara hvorn sinn bakkann en aðgengið að því er misjafnt,“ segir Magnús.

Þetta er í annað sinn sem jörðin er sett á sölu, en í fyrra skiptið var það hluti hennar sem var auglýstur falur.

Fjaðrárgljúfur hefur nær alla tíð verið afar vinsæll áfangastaður, en vinsældir gljúfursins jukust til muna eftir að poppstjarnan Justin Bieber tók upp tónlistarmyndband í gljúfrinu í september í fyrra.

Justin Bieber tók upp myndband í gljúfrinu í september í fyrra.mynd/justin bieber
Nokkuð hefur verið fjallað um kaup á jörðinni Fell í Suðursveit, sem á land að Jökulsárlóni, en Alþingi samþykkti samhliða fjárlögum og fjáraukalögum á dögunum að ganga inn í kaup á jörðinni. Þá var bróðurpartur Grímsstaða á Fjöllum seldur til breska milljarðamæringsins Jim Ratcliffe fyrr í þessum mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×