Íslenska karlasveitin endaði í 15. sæti í 4 x 100 metra fjórsundi karla á HM í Windsor í Kanada.
Strákarnir syntu á 3:39,48 mínútum og bættu tveggja ára landsmet um þrjár og hálfa sekúndu. Gamla metið var sund upp á 3:43.16 mínútu á HM í Doha í desember 2014.
Íslensku sveitina skipuðu þeir Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Viktor Máni Vilbergsson, Kristinn Þórarinsson og Aron Örn Stefánsson. Til þess að komast inn í úrslitariðil hefði sveitin þurft að synda á 3:27,47 mínútum.
Sundið hjá strákunum var einnig mun hraðara en Íslandmetið en það á sveit ÍRB frá því í síðasta mánuði. Davíð Hildiberg Aðalsteinsson synti bæði þessi sund og á því þátt í báðum metunum í dag.
Skömmu fyrir boðsundið hafði Kristinn Þórarinsson synt 200 metra baksund á 2:02,14 mínútum sem var meira en fjórum sekúndum frá hans besta en dugar honum í 40. sæti í greininni af 54 keppendum.
Íslandsmetið í 200 metra baksundi á Örn Arnarson síðan á EM25 á Spáni árið 2000 en Örn synti þá á 1:52,90 mínútum. Til samanburðar þá var síðasti tími inn í úrslitasundið á HM sund upp á 1:51,92 mínútur.
Þetta var flott sund hjá strákunum sem þar með hafa allir lokið keppni á HM25.
Strákarnir bættu landsmetið um þrjár og hálfa sekúndu
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
