Bandaríski tæknirisinn Apple hefur fjárfest í fjórum kínverskum fyrirtækjum sem sérhæfa sig í framleiðslu og rekstri á vindmyllum til raforkuframleiðslu.
Fjárfestingin er liður í stefnu Apple um að gera framleiðslu á vörum sínum umhverfisvænni en stór hluti framleiðslunnar fer fram í Kína.
Þetta er í fyrsta sinn sem Apple fjárfestir í vindmyllum en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu munu vindmyllurnar skila um 285 megawöttum af rafmagni sem eyrnamerkt er verksmiðjum Apple í Kína.
Apple hefur í auknum mæli horft til þess að nýta endurnýjanlega orkugjafa en á síðasta ári tilkynnti fyrirtækið um að það hefði fjárfest í verkefnum sem snúa að nýtingu sólarorku.
Þá verða nýjar höfuðstöðvar Apple sem nú eru í byggingu í Kaliforníu að miklu leyti knúnar áfram af sólarorku.
Apple fjárfestir í vindmyllum
