Fótbolti

Girti niður um mótherja í undankeppni HM og allt varð vitlaust | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edin Dzeko, fyrrum leikmaður Manchester City og núverandi leikmaður Roma á Ítalíu, gerði allt vitlaust í leik Bosníu og Grikklands í undankeppni HM 2018 í kvöld þegar Bosníumaðurinn gerði sig sekann um afar óíþróttamannslega hegðun.

Spennustigið var hátt í leiknum á Karaiskakis leikvanginum í Piraeus en Bosníumenn gátu jafnað við Grikki að stigum með sigri. Grikkir höfðu fyrir leikinn unnið alla sína þrjá leiki en Bosníumenn höfðu unnið alla leiki nema þann sem tapaðist á móti gríðarlega sterku liði Belga.

Sokratis Papastathopoulos, varnarmaður Grikkja, endaði á nærbuxunum á 75. mínútu leiksins eftir að Edin Dzeko hreinlega girti niður um hann eftir að þeir lentu í átökum um boltann. Dzeko lá þá í grasinu og var búinn að fá aukaspyrnu eftir brot Grikkja.

Sokratis kom þá aðvífandi og reyndi að hrifsa boltann af honum. Dzeko greip þá í stuttbuxur Sokratis og girti niður um hann. Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá þetta ótrúlega atvik.

Í framhaldinu varð allt vitlaust og bæði Edin Dzeko og Grikkinn Kyriakos Papadopoulos fengu að líta rauða spjaldið. Það tók samt sænska dómarann Jonas Eriksson dágóða stund að leysa úr öllu enda var mönnum mjög heitt í hamsi.

Edin Dzeko fékk þarna sitt annað gula spjald en hann gæti mögulega verið á leið í nokkra leikja bann ákveði aganefnd UEFA að taka hart á framkomu hans í kvöld.

Staðan var 1-0 fyrir Bosníumenn þegar allt varð vitlaust en markið var sjálfsmark markvarðar Grikkja á 32. mínútu leiksins. Grikkir náðu hinsvegar að jafna metin í lokin og tryggja sér eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×