Körfubolti

Tröllaþrenna Westbrook dugði ekki til | Myndbönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ibaka fagnar í nótt.
Ibaka fagnar í nótt. Vísir/AP
Meistarar Cleveland Cavaliers lentu í basli gegn Charlotte Hornets í NBA-deildinni í nótt en höfðu þó sigur, 100-93, eftir góðan fjórða leikhluta.

Charlotte, sem vann sex af fyrstu sjö leikjum sínum á tímabilinu, var með forystu þegar lokaleikhlutinn hófst en James tók þá til sinna ráða. Hann endaði með ellefu stig og fimm stoðsendingar í fjórða leikhlutanum.

Fram að því hafði James aðeins nýtt fjögur af fimmtán skotum sínum í leiknum en hann skoraði alls nítján stig í leiknum.

Kyrie Irving var með nítján stig og Kevin Love sautján en hvorugur spilaði í fjórða leikhluta þar sem að Tyronn Lue, þjálfari Cleveland, hélt tryggð við þá leikmenn sem sáu um endurkomu meistaranna undir lokin.



Orlando vann Oklahoma City, 119-117, þar sem Serge Ibaka skoraði sigurkörfu leiksins gegn sínum gömlu félögum þegar innan við sekúnda var eftir af leiknum.

Ibaka sokraði 31 stig í leiknum og var með níu fráköst og fjögur varin skot þar að auki.

Russell Westbrook náði ótrúlegri þrennu í leiknum - 41 stigi, sextán stoðsendingum og tólf fráköstum - en klikkaði á mikilvægu skoti undir lokin þegar staðan var jöfn. Þetta var þriðja þrenna Westbrook á tímabilinu og fertugasta alls á ferlinum.





Golden State vann Phoenix, 133-120, þar sem Klay Thompson og Steph Curry skoruðu báðir 30 stig. Kevin Durant var svo skammt undan með 29 stig en hann var einnig með níu fráköst og fimm stoðsendingar.

Minnesota vann LA Lakers, 125-99, þar sem Andrew Wiggins bætti persónulegt met með því að skora 47 stig - jafn mörg og allt byrjunarlið Lakers í leiknum.

Þá hafði Portland betur gegn Denver, 112-105, en síðarnefnda liðið tapaði þar með sínum fjórða leik í röð.

Úrslit næturinnar:

Cleveland - Charlotte 100-93

Oklahoma City - Orlando 117-119

Minnesota - LA Lakers 125-99

Golden State - Phoenix 133-120

Portland - Denver 112-105



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×