„Ég átta mig ekki alveg á því,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, aðspurður hvernig það leggist í hann að stjórnarmyndunarumboðið sé komið í hendurnar á Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokks.
Óttarr segir stöðuna sem nú sé uppi afar flókna. „Það virðist ekkert augljóst vera í spilunum. Ég er ekki að gera ráð fyrir neinu í þessum efnum, en við höfum sagt frá því að við munum taka þátt í ríkisstjórn ef það er málefnalega ásættanlegt. En það er ekki komið á borðið eins og sakir standa.“
Áttu von á að fá símtal frá Bjarna vegna mögulegrar stjórnarmyndunar?
„Hann lýsti því yfir að hann muni hafa samband við alla flokka, þannig að já.“
Aðspurður hvort hann telji líklegt að Björt framtíð verði í næstu ríkisstjórn, segir hann að þurfi að skoða, og ítrekar að málefnalegur grunnur verði að liggja fyrir áður en slík skref séu tekin.
