Skoðun

Ég trúi, eða ég neita að trúa…

Jóhanna Guðmundsdóttir skrifar
Ég verð að viðurkenna að ég er pínu sorgmædd núna. Ekki af því að það er farið að kólna, ekki heldur af því það er farið að dimma, ekki heldur af því ég er í veikindaleyfi. Ég er búin að vera sorgmædd síðan í ágúst.

Í ágúst byrjaði sambýlismaður minn að vinna sem vörubílstjóri hjá fyrirtæki í Reykjavík. Það var frábært fyrir heimilið en mjög svo sorglegt fyrir mig sem kennara. Byrjunar launin hans eru um 70 þúsundum hærri en launin mín eftir 7 ár í kennslu. Byrjunarlaunin hans eru tæpum 100 þúsund krónum meiri en byrjunarlaun ný útskrifaðs kennara eftir 5 ára háskólanám. Jú það er álag á honum og hann kemur mjög þreyttur heim eftir langan vinnudag og vill bara slappa af og eyða tíma með dóttur sinni áður en hún fer að sofa.

En bíddu, það geri ég líka, ég vinn jafn langan vinnudag, ég er alveg jafn þreytt þegar ég kem heim og mig langar líka að slappa af og eyða tíma með stelpunni áður en hún fer að sofa. En munurinn á okkur er sá að þegar hann kemur heim úr vinnunni þá er hann búinn að vinna þann daginn, en þegar ég kem heim úr vinnunni þá bíður mín að klára undirbúning fyrir kennslu, yfirferð verkefna og oft þarf að semja eða aðlaga verkefni eða próf sem leggja á fyrir nemendur. Ég viðurkenni það að ég leyfi mér nú að eyða tíma með stelpunni en það þýðir að þegar hún fer að sofa þá fer ég að vinna, AFTUR.

Ég er líka sorgmædd yfir þeirri staðreynd að samfélagið sem við búum í er samsett af meirihluta einstaklinga sem kýs eina stjórnmálaflokkinn sem hefur ekkert á stefnuskrá hjá sér um mennta-, heilbrigðis- eða löggæslumál.

Já ég er sorgmædd, ekki bara yfir þessu, heldur líka því sem sambýlismaður minn sagði á kosningadaginn þegar við vorum að ræða um hvort hann væri tilbúinn að kjósa eða ekki. Hann var frekar óákveðinn og vissi ekki hvað hann ætti að kjósa og var að lesa enn einu sinni yfir stefnuskrár flokkanna. Það sem syrgði mig í þessum umræðum var að hann viðurkenndi það að ef hann væri ekki í sambandi með kennara þá myndi hann ekkert hugsa út í það hvort flokkarnir hefðu menntamál á stefnuskránni hjá sér eða ekki. Hann hugsar alltaf um heilbrigðismál þar sem mamma hans er ljósmóðir en þrátt fyrir að vera faðir með barn í 2. bekk þá hefði þetta ekki komið upp sem hitamál fyrir honum ef ekki væri fyrir þá ástæðu að ég er kennari.

Mér finnst þetta sorglegt því eins og hann eru örugglega margir foreldrar þarna úti sem hafa ekki hugsun á að vilja sjá menntamál á stefnuskrá flokkanna. Ég trúi því að allir foreldrar vilji börnunum sínum vel, að allir foreldrar vilji að börnin sín fái sem besta menntun til að undirbúa þau fyrir framtíðina, hvort sem börnin endi í bók- eða verknámi. Ég trúi því líka að fólkið sem var í framboði núna fyrir alþingiskosningarnar vilji það besta fyrir börnin í landinu þegar kemur að menntun, heilbrigðismálum og löggæslu. Flestir þeirra sem hlutu kosningu eru einmitt foreldrar líka, líka þau þeirra sem hlutu kosningu fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. 

Ég neita að trúa því að þetta sama fólk geri sér grein fyrir hversu slæmt ástandið er í þessum þremur starfsstéttum, hversu mikil mannekla er vegna þess að það fæst ekki fólk til vinnu þar sem launin eru ekki samkeppnishæf við önnur störf. Ég vil ekki trúa því að þeir sem sitja við stjórnvölin, og hafa setið þar geri sér grein fyrir hversu slæmt ástandið er og ákveði samt að byrja að skera niður fjárlög við þessar stofnanir. Ég neita líka að trúa því að þeir sem sitja við samningaborðið fyrir hönd ríkis og sveitarfélaga finnist laun þessara starfsstétta boðleg. Að þeim finnist í lagi að launin dugi ekki til framfærslu, að einstaklingur sem vinnur sem kennari, eftir 5 ára háskólanám, þurfi að vera í aukavinnu til þess að koma ekki út í mínus um hver mánaðamót.

Já það er álag á kennurum, en það er ekki það sem skiptir öllu máli akkúrat hérna. Það sem skiptir máli er það að launin duga ekki fyrir framfærslu einstaklinga, hvað þá ef einstaklingurinn hefur barn á framfærslu. Það sem skiptir máli er að launin eru ekki samkeppnishæf launum fyrir önnur störf og því er kennaraskortur og sífellt fleiri undanþágur veittar til að ráða leiðbeinanda í störf kennara. Ekki misskilja mig, þessir leiðbeinendur eru margir hverjir flottir starfskraftar í skólanum og sinna sínu starfi mjög vel og af fullum heilindum. EN ef það er nóg að sýna áhuga og sinna starfinu vel og af heilindum, af hverju er þá krafa um að fólk þurfi að fara í 5 ára háskólanám til að mennta sig sem kennari? Jú það er ekki nóg að hafa áhugann og metnaðinn einan og sér. Það eru fullt af fræðum á bak við það sem gerist í skólastofunni, og þá er ég ekki bara að tala um námsefnið, heldur hvernig á að miðla námsefninu, hvernig á að höfða til sem flestra nemenda, hvernig er hægt að fara mismunandi leiðir að sama markmiðinu, hvernig er hægt að kveikja áhuga á námsefni hjá nemendum sem við fyrstu sýn hafa engan áhuga á viðfangsefninu. Vissulega kemur þessi þekking með reynslu eða það sem er kallað á ensku „trial and error“ en til að geta farið í það ferli að afla sér þessarar reynslu þarf grunn, þarf þekkingu á fræðum og rannsóknum sem gerðar hafa verið. Ef sú þekking er ekki til staðar þá er hver og einn að finna hjólið upp aftur og aftur í hverri einustu skólastofu landsins.

Ég tala ekki fyrir styttingu námsins, ég tala heldur ekki fyrir því að útrýma eigi undanþágum fyrir leiðbeinendur, því eitt sinn kenndi ég á slíkri undanþágu samhliða meistaranáminu og komst þá að því að því meiri þekkingu sem ég sankaði að mér á sviði kennslu og uppeldisfræða því auðveldara var að takast á við kennsluna dags daglega, það var auðveldara að finna leiðir til að takast á við nemendur sem þurftu meiri skilning, þurftu meira en bara bók og blýant til að vera virkir í skólastofunni, nemendur sem þurftu kannski bara skilning á sínum aðstæðum, bæði heimilis og námslega. Þetta fékk ég með því að mennta mig sem kennari.

Ég fór „lengri“ leiðina að því að verða kennari, ég fór fyrst í BA nám í sögu og ensku og svo í Med nám í kennslu og uppeldisfræðum svo ég var samtals 5 ár í námi til að verða kennari. Nei bíddu! þetta er ekkert lengri leið, heldur bara önnur leið því kennaranámið eru 5 ár og til þess að fá pappír í hendurnar sem segir að einstaklingur megi kalla sig Grunnskólakennari krefst þess að sá hinn sami ljúki meistaragráðu. Mín leið gerði það að verkum að ég er með tvö stykki svona pappír, annar segir að ég megi kalla mig Grunnskólakennari og hitt að ég megi kalla mig Framhaldsskólakennari.

Það sem gerir mig sorgmædda er að þegar ég var einhleyp hafði ég ekki efni á að reka mitt eigið húsnæði, ég varð að fá að búa í 7fm herbergi hjá foreldrum mínum og var ég svo heppin að geta það, það eru ekki allir svo heppnir.

Það sem gerir mig líka sorgmædda er sú staðreynd að á þessum sama tíma ákvað ég að fara í greiðslumat til að athuga hvort ég gæti keypt mér húsnæði, það er jú ódýrara en að leigja í flestum tilfellum. Ég man enn þá hversu niðurlægjandi það var að sitja á móti þjónustufulltrúanum sem réð ekkert við sig og hló að fáránleikanum sem blasti við henni. Fáránleikinn var sá að ég með mína menntun, í 100% starfi fékk greiðslumat upp á 10.000 kr. afborganir. Ég sem sagt, eftir að hafa lagt allt þetta nám á mig til þess að vera sem hæfust í mitt starf fékk ekki greiðslumat til að kaupa mér húsnæði, ekki af því ég væri með bíl eða mikið af skuldum, heldur af því ég er með námslán. Ég er ekki sú fyrsta, ekki sú eina og ekki sú síðasta sem fæ þessi svör frá bankanum. Það er það sorglegasta og alvarlegasta við ástandið í kjaramálum kennarastéttarinnar, launin duga ekki til almennrar framfærslu, hvað þá slíks munaðar sem það telst að kaupa sér sitt eigið húsnæði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×