Fótbolti

Bravo tekur tapið á sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Serbneski dómarinn Milorad Masic sýnir Claudio Bravo rauða spjaldið.
Serbneski dómarinn Milorad Masic sýnir Claudio Bravo rauða spjaldið. vísir/getty
Claudio Bravo, markvörður Manchester City, tekur tap liðsins fyrir Barcelona á Nývangi gær á sig.

Bravo varð á í messunni eftir níu mínútna leik í seinni hálfleik þegar hann var rekinn af velli fyrir verja boltann með höndum fyrir utan vítateig.

Þá var staðan 1-0, Barcelona í vil, en nokkrum mínútum eftir rauða spjaldið skoraði Lionel Messi annað mark sitt og annað mark Börsunga. Messi og Neymar bættu svo við mörkum áður en yfir lauk og fullkomnuðu 4-0 sigur Barcelona sem er með fullt hús stiga í C-riðli Meistaradeildar Evrópu.

„Þetta breytti leiknum. Við vorum að spila vel, sköpuðum okkur færi en svona er fótboltinn,“ sagði Bravo um rauða spjaldið eftir leikinn í gær.

„Þetta er leikur mistaka og réttra ákvarðana. Það var bara óheppni að ég skyldi breyta gangi leiksins. En svona er þetta. Við verðum að halda áfram að leggja hart að okkur og líta fram á veginn,“ bætti markvörðurinn við.

Rauða spjaldið kom í kjölfar misheppnaðar sendingar Bravo fram völlinn. Þrátt fyrir mistök Sílemannsins sagðist Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Man City, ekki ætla að breyta nálgun sinni að spila út frá markverði.

„Ég mun spila boltanum fram völlinn frá markverði þar til ég hætti að þjálfa. Er við spilum vel þá er það af því spilið byrjar vel frá markverðinum,“ sagði Guardiola eftir leikinn en hann fékk Bravo til Man City frá Barcelona skömmu áður en félagaskiptaglugginn lokaði í haust.


Tengdar fréttir

Messi eyðilagði heimkomu Guardiola

Lionel Messi fór illa með sinn gamla læriföður, Pep Guardiola, er Guardiola mætti með Man. City á sinn gamla heimavöll, Camp Nou.

Guardiola vildi fá Ter Stegen í sumar

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segist hafa haft áhuga á Marc-André ter Stegen, markverði Barcelona, í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×