Bjarni hélt sig við það sem fyrr að ekki þýddi að standa í aðildarviðræðum nema fyrir lægi vilji að ganga í ESB. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar í Kraganum, sagði ljóst að Bjarna hafi snúist hugur og eins sótti Árni Páll Árnason, oddviti Samfylkingar, að Bjarna vegna málsins, sem spurði: „Hverskonar rugl er þetta?“ Kom til snarpra skoðanaskipta vegna þessa máls.
Mismikil ánægja með nýja könnun
Oddvitar sjö flokka í Kraganum, þeirra sem mælast með meira en fimm prósenta fylgi í könnunum í Suðvesturkjördæmi, tókust á í kosningaþætti Stöðvar 2 nú í kvöld. Talsverð spenna var í loftinu ekki síst vegna þess að þar mættust meðal annars Bjarni formaður Sjálfstæðisflokksins og Þorgerður Katrín fyrir Viðreisn, en hún er fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokks.
Eygló Harðardóttir mætti fyrir Framsóknarflokk, Árni Páll Árnason fyrir Samfylkinguna, Óttarr Proppé fyrir Bjarta framtíð, Jón Þór Ólafsson fyrir Pírata og Rósa Björk Brynjólfsdóttir fyrir Vinstri græn.
Þátttakendum var kynnt ný könnun um fylgi flokkanna í kjördæminu og vitaskuld voru oddvitarnir misánægðir með niðurstöðuna.
Eygló segir Framsókn hafa staðið í erfiðum málum
Jón Þór var ánægður og sagði ágætt fylgi til marks um það sem allir Íslendingar vildu norrænt velferðarkerfi. Og fyrir því hafi Píratar talað.
Eygló benti á að Framsóknarflokkurinn hafi unnið verulega góðan sigur í síðustu kosningum. Framsóknarmenn horfa nú fram á að Willum Þór Þórsson detti út af þingi. Eygló taldi það góða spurningu hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn væri að bæta við sig en Framsóknarflokkurinn að tapa fylgi. Eygló taldi skýringuna helst þá að hún hafi þurft að berjast í erfiðum málum sem efst eru á baugi sem eru húsnæðismál og kjör öryrkja og aldraðra.
Vonbrigði í Samfylkingu
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi sem mælst hefur í könnunum 365 og Bjarni taldi sterka stöðu í Kraganum meðal annars helgast af því að þeir stæðu vel og væru með meirihluta í mörgum sveitarstjórnum kjörtímabilsins. Hann vill tryggja Vilhjálm Bjarnason inn á þing, sem stendur tæpt, og sækja 6. manninn.
Árni Páll sagði könnunina óneitanlega vera vonbrigði eins og staða flokksins almennt á landsvísu. Hvatning til að leggjast á árarnar og tryggja Margréti Gauju Magnúsdóttur inn. Hann taldi þúsund skýringar á þessu, ein væri sú sem Jón Þór nefndi með norrænt velferðarmódel – það hafi verið öxull í pólitík Samfylkingarinnar. Árni Páll vildi ekki kvarta undan því að aðrir töluðu fyrir þeim sjónarmiðum og notaði tækifærið og taldi mikilvægt að þau í Samfylkinguna, með sína reynslu, kæmu að borðum þegar næsta ríkisstjórn er mynduð.
Holur hljómur í gömlu kosningaloforðarullunni
Þorgerður Katrín gat ekki verið annað en kát með niðurstöðuna og að ýmislegt benti til þess að Viðreisn yrði með sögulega innkomu á þingið. Þorgerður var spurð hvort Evrópumálin væru nokkuð í deiglunni núna en hún taldi það af og frá, ungt fólk væri að spyrja um þetta og þau sem miðaldra væru hefðu ekki leyfi til að taka valkosti af ungu fólki í þeim efnum.
Óttarr Proppé horfir fram á eilítið minna fylgi en í kosningum 2013 en segir Bjarta framtíð hafa verið að braggast að undanförnu. Hann segir athyglisvert að sjá í þróun sem er að hefðbundnu flokkarnir séu að gefa eftir. Hann segir það sögulegt og ljóst að kominn sé holur hljómur í gömlu kosningaloforðarulluna. Mikill vilji sé til breytinga.
Rósa Björk var virkilega ánægð fyrir hönd VG, sem var að bæta við sig fjórum prósentum frá í kosningum. Rósa segir þetta þýða að fólk treysti þeim til góðra verka.
Sjá má kjördæmaþáttinn í heild sinni í spilaranum að neðan.