Þetta kom fram í máli formanns flokksins, Júlíusar Valdimarssonar, í Kosningaspjalli Vísis í dag.
Hann segir að börn ættu í meira mæli að fá að hafa áhrif á það hvað er kennt í skólum landsins - út frá því hvaða þarfir nemendurnir hafa. „Þeir eiga að geta ákveðið það hvað þeir telja þörf á að læra og hvernig er lært og svo framvegis.“
Hann segir að þessi aukna lýðræðisvæðing menntakerfisins muni leiða til þess að skólarnir verði betri og nemendurna betur til þess fallna að átta sig á eigin hæfileikum. Það muni að lokum gera þá hæfari til að takast á við það sem framtíðin ber í skauti sér.
Mikilvægt er að mati Júlíusar að börn öðlist aukið sjálfstraust og læri að standa með sjálfum sér. Þá segir hann aukna aðkomu nemenda að tilhögun námsins muni hafa í för með sér bætta rökhugsun þeirra, að börnin verði meiri hópsálir, verði gagnrýnni og að þau muni eiga auðveldara með leiða sig að niðurstöðum.
Snúa frá starfsmannaáherslunni
„Þau geta algjörlega tjáð sig um það sem þau vilja,“ segir Júlíus. Hann bætir við að stefna Húmanista í þessum málum sé til þess fallin að snúa við ríkjandi áherslum í menntakerfinu sem að mati Júlíusar einbeiti sér of mikið að því að búa til starfsmenn fyrir fyrirtækjarekstur.
„Auðvitað þarf að vera starfsnám, auðvitað þarf fólk að kunna tungumál og geta reiknað og kunna grundvallaratriðin til þess að verða góðir starfsmenn. Þau eiga þó líka að læra og hafa þjálfun í því að vera sjálfbærar manneskjur sem að geta búið sér til sína framtíð á sínum forsendum - ekki á forsendum atvinnulífsins.“ segir Júlíus.
Viðtalið við Júlíus má sjá hér að ofan en þar ræðir hann meðal annars þjóðpeningakerfi, borgaralaun, lækkun kosningaaldurs og allt það sem gerir Húmaista að húmanistum.