Berglind stóð vaktina í marki Íslands í 1-0 sigri gegn Úsbekistan í gærmorgun í lokaleik stelpnanna okkar á Sincere-æfingamótinu í Kína.
Í miðju viðtali við Stöð 2 fékk hún sturtu frá Glódísi Perlu Viggósdóttur og Söndru Maríu Jessen en markvörðurinn ungi tók hrekknum vel - vildi bara að passað yrði upp á símann hennar.
Karma bankaði upp á hjá Glódísi Perlu skömmu síðar þegar hún var að stilla sér upp fyrir myndatöku ásamt framherjanum Berglindi Björg Þorvaldsdóttur.
Þegar þær brostu sínu breiðasta áður en smellt var af fór úðarakerfið á vellinum í Chongqing í gang og sprautaði beint á Glódísi og Berglindi. Sandra slapp þó með skrekkinn.
Þetta náðist á myndband þegar Freyr Alexandersson var í viðtali við Stöð 2 eftir leikinn en atvikið má sjá hér að ofan.