Niðurstöðurnar benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fái flest atkvæði allra flokka. Alls segist 25,1 prósent þeirra sem afstöðu taka ætla að kjósa flokkinn, en 23,7 prósent sögðust ætla að kjósa flokkinn í síðustu viku.

Samfylkingin er núna með sex prósenta fylgi, sem er svipað og flokkurinn var með í síðustu viku, og Björt framtíð tapar fylgi milli vikna, er með 5,1 prósent núna en var með 7,4 prósent.
Undanfarið hafa Píratar, VG, Samfylkingin og Björt framtíð rætt saman um samstarf eftir kosninga. Sigríður Ingibjörg segir Samfylkinguna þó ekki geta tekið þátt í stjórnarsamstarfi ef niðurstöður kosninga verða í samræmi við kannanir. „Ekki við þessar aðstæður en við þurfum að styrkja stöðu okkar til að geta farið í slíkt samstarf.“
Fleiri taka afstöðu í þessari könnun en í fyrri könnunum Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, eða 76,6 prósent. Rúm sex prósent segjast ekki ætla að kjósa eða skila auðu, níu prósent segjast óákveðin og tæp átta prósent kjósa að svara ekki spurningunni.
Í könnun sem gerð var fyrir viku tóku 68 prósent svarenda afstöðu. Ein leið til að túlka þá niðurstöðu er að fólk sé í auknum mæli farið að velta fyrir sér kosningunum sem eru á laugardaginn.
Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.127 manns dagana 24. og 25. október þar til náðist í 802 samkvæmt lagskiptu slembiúrtaki. Svarhlutfallið var því 71,2 prósent.