Til að komast á kjörstað þarf Hákon að labba yfir eyjuna, þaðan fer hann í bátinn sinn sem hann siglir yfir Þjórsá. Við bakka Þjórsár bíður bíllinn hans sem hann ekur um tuttugu mínútna leið að félagsheimilinu Félagslundi í Flóahreppi þar sem hann kýs. Félagslundur var áður í gamla Gaulverjahreppi en hann hefur verið sameinaður Flóahreppi.

„Það eru forréttindi að búa í lýðræðisríki og alveg sama hvað menn kjósa, þá eiga þeir að nýta réttinn sinn. Þetta er einn dagur á fjögurra ára fresti. Ef menn geta ekki staðið upp og kosið þá þýðir lítið að vera að kvarta yfir ástandinu,“ segir Hákon.
Hákon er þriðji ættliðurinn sem á eyjuna Traustholtshólma en hann flutti sjálfur þangað í vor og hefur í sumar gert þar upp hús og staðið í uppbyggingu á ferðaþjónustu.
Hann ætlar að vera á eyjunni fram í nóvember en fer þá upp á meginlandið til að vinna en fer svo aftur út í Traustholtshólma í apríl næstkomandi og verður yfir sumarið.
