Enski boltinn

Koeman brjálaður: „Þið eruð að drepa leikmanninn minn“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
James McCarthy spilaði næstum allan leikinn bæði gegn Georgíu og Moldavíu.
James McCarthy spilaði næstum allan leikinn bæði gegn Georgíu og Moldavíu. vísir/getty
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton í ensku úrvalsdeildinni, vandar írska landsliðinu og þjálfara þess, Martin O'Neill, ekki kveðjurnar vegna meðferð Íranna á James McCarthy, leikmanni Everton, í síðustu landsleikjaviku.

McCarthy spilaði fyrstu tvo leiki tímabilsins með Everton en hefur síðan ekki spilað vegna meiðsla í nára. Hann var engu að síður valinn í írska landsliðið sem mætti Georgíu og Moldavíu í síðustu landsleikjaviku.

McCarthy byrjaði báða leikina þrátt fyrir að koma aftur úr meiðslum og spilaði 90 mínútur gegn Georgíu og 80 mínútur gegn Moldavíu.

Þegar írski miðjumaðurinn sneri aftur til Everton sagði læknalið félagsins að Koeman gæti ekki notað McCarthy um helgina eða á næstunni því hann er algjörlega búinn eftir vikuna með Írlandi.

„Þegar James kom aftur frá Írlandi voru skilaboðin frá læknaliðinu mínu að hann væri búinn að spila alltof mikið og nú erum það við sem þurfum að koma honum í lag,“ sagði Koeman á blaðamannafundi í dag.

„Ég væri til í að sjá leikmanninn hugsa meira um Everton því það erum við sem borgum honum en auðvitað var James í erfiðri stöðu. Það er náttúrlega fáránlegt að hann spili 90 mínútur og svo 80 mínútur þremur dögum síðar.“

„Auðvitað er hann algjörlega búinn á því. Ég fer ekki svona með mína leikmenn því þá meiðast þeir bara aftur. Spilið honum í 45 mínútur eða 60 mínútur en ekki 95 mínútur og svo 80 nokkrum dögum síðar. Þið eruð að drepa leikmanninn minn,“ sagði Ronald Koeman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×