Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, var að vonum sáttur eftir dramatískan 3-2 sigur á Finnlandi í undankeppni HM 2018 í kvöld.
Sigurinn var torsóttur og Aron segir að Finnarnir hafi verið erfiðir viðureignar í kvöld.
„Þeir eru viljugir og vinna vel og gerðu okkur lífið erfitt. En það sýnir viljann og styrkinn í okkar liði að við náðum að klára þetta. Þetta voru frábærir þrír punktar,“ sagði Aron Einar í samtali við Tómas Þór Þórðarson eftir leik. Fyrirliðinn hrósaði liðsheild íslenska liðsins.
„Menn komu inn á og það eru menn sem eru að skora í sínum deildum og eru tilbúnir að gera allt fyrir landsliðið. Við erum heppnir með það. Við erum með góða leikmenn sem geta klárað svona leiki. Við hættum ekkert fyrr en leikurinn er búinn. Þetta er virkilega sterkur sigur.“
Aron fékk að líta gula spjaldið fyrir stympingar þegar fimm mínútur voru eftir. Hann fékk einnig gult í leiknum gegn Úkraínu og er því kominn í leikbann.
„Ég er svekktur með sjálfan mig að hafa ýtt í hann. Þetta var klaufalegt hjá mér. Ég læri af því,“ sagði Aron sem verður ekki með íslenska liðinu gegn því tyrkneska á sunnudaginn.
