Gengi hlutabréfa í þýska bankarisanum Deutsche Bank tók dýfu í gær og hélt niðursveiflan áfram fram á nótt. Hlutabréfin fóru undir 10 evrur í fyrsta sinn en hófu að hækka á ný í morgun og mælist nú gengið klukkan hálf tíu 10,4 evrur.
BBC greinir frá því að John Cryan, framkvæmdastjóri bankans, hafi sent starfsmönnum bankans tölvupóst til að fullvissa þá um að bankinn stæði stöðugur. Í póstinum sagði að bankinn hefði aldrei verið í eins sterkri stöðu á síðustu tuttugu árum eins og núna.
Eins og Vísir greindi frá hefur gengi hlutabréfa í bankanum hríðfallið á síðustu vikum eftir að kom í ljós að hann standi frammi fyrir 14 milljarða dollara, 1.600 milljarða króna, sekt af hálfu bandarískra stjórnvalda. Þetta nemur um það bil markaðsvirði félagsins í dag. Forsvarsmenn Deutsche Bank segjast þó ekki hafa í hyggju að borga þessa sektarupphæð.
Misvísandi fregnir hafa svo borist af því í vikunni hvort þýsk stjórnvöld hyggist bjarga bankanum, en líklega mun það skýrast á næstu vikum.
