Alls fóru 3.000 miðar í almenna sölu en áður voru 1.800 mótsmiðar farnir. Þeir sem keyptu sér slíka miða eiga öruggt sæti á öllum heimaleikjum strákanna okkar í undankeppninni.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við Vísi að sambandið vildi geta selt fleiri miða en 3.000 í almennri sölu en Tyrkirnir sóttust eftir öllum sínum miðum sem eru um 1.000. Því var það ekki í boði.

„Þeir óskuðu meira að segja eftir fleiri miðum en það en það kom ekki til greina,“ sagði Klara.
Þegar blaðamaður Vísis skellti sér í miðasöluröðina fimm mínútur yfir tólf var hann númer 637 í röðinni og þurfti að bíða í um tíu mínútur eftir að komast að.
Klara sagði Vísi að 1.734 miðar voru farnir klukkan 12.17 en um korter yfir tvö voru nákvæmlega 783 miðar eftir.
Leikur Íslands gegn Tyrklandi verður þriðji leikurinn í undankeppninni en strákarnir mæta Úkraínu ytra á mánudagskvöldið og Finnlandi heima 6. október, þremur dögum fyrir leikinn gegn Tyrklandi.
Uppselt er á leikinn gegn Finnlandi en miðarnir á hann seldust upp á um fimm tímum.