Enski boltinn

Ólíklegt að O'Neill taki við Hull

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
O'Neill hefur verið landsliðsþjálfari Írlands frá 2013.
O'Neill hefur verið landsliðsþjálfari Írlands frá 2013. vísir/getty
Martin O'Neill, landsliðsþjálfari Írlands, gefur lítið fyrir sögusagnir þess efnis að hann sé á leið til enska úrvalsdeildarliðsins Hull City.

Hull hefur verið stjóralaust síðan Steve Bruce hætti störfum skömmu áður en keppni í úrvalsdeildinni hófst. Mike Phelan hefur stýrt liðinu síðan þá en óvíst er hvort hann verður með liðið til frambúðar.

O'Neill er einn þeirra sem hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Hull en hann segir ólíklegt að hann taki við Tígrunum.

Mike Phelan hefur stýrt Hull frá því Steve Bruce steig frá borði.vísir/getty
„Ég hef ekkert um þetta að segja,“ sagði O'Neill þegar hann var spurður um stjórastarfið hjá Hull eftir 2-2 jafntefli Írlands og Serbíu í Belgrad í undankeppni HM 2018 í gærkvöldi.

O'Neill og Roy Keane, aðstoðarmaður hans, eiga enn eftir að skrifa undir nýjan samning við írska knattspyrnusambandið. O'Neill segir að það sé þó bara formsatriði.

„Það er ekkert vesen með samninginn minn, það er allt á hreinu. Við tókumst í hendur upp á nýjan samning fyrir nokkru síðan,“ sagði hinn 64 ára gamli O'Neill sem hefur þjálfað írska landsliðið frá 2013.

Hull er með sex stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×