Baldur Sigurðsson, leikmaður Stjörnunnar, verður ekki með þegar liðið mætir FH í stórleik 16. umferðar Pepsi-deildar karla.
Baldur fór meiddur af velli í leik Stjörnunnar og Þróttar þann 8. ágúst og missti svo af leik Garðbæinga gegn KR í síðustu umferð.
Stjarnan fékk aðeins eitt stig úr þessum tveimur leikjum og þarf sárlega á sigri að halda gegn FH í kvöld til að halda vonum sínum um Íslandsmeistaratitilinn á lífi.
„Þetta er tognun aftan í læri. Það er engin rifa í vöðvanum, það kom að minnsta kosti ekki í ljós í ómskoðun,“ sagði Baldur í samtali við Vísi í dag.
Hann telur þó að það sé eitthvað meira í gangi en bara venjuleg tognun.
„Ég veit þó ekkert meira um það. En um leið og það var byrjað með bolta á æfingu þá gat ég ekki verið með. Það er mjög sérstakt.“
„En þetta kemur allt í ljós og er vonandi ekkert alvarlegt.“
Hann segir sérstaklega slæmt að missa af þessum tveimur leikjum - FH í kvöld og KR í síðustu umferð.
„Ekki bara vegna stöðunnar í deildinni heldur líka vegna þess að það er alltaf gaman að spila gegn þessum liðum,“ segir Baldur sem lék um árabil með liði KR.
