Fótbolti

Davíð Þór: Markið hjá Lennon var mjög mikilvægt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Davíð Þór tæklar leikmann Dundalk í fyrri leiknum í Írlandi.
Davíð Þór tæklar leikmann Dundalk í fyrri leiknum í Írlandi. vísir/ryan byrne
„Þetta er mjög gott lið. Þeir eru líkamlega sterkir en reyna samt að spila boltanum með jörðinni og láta hann ganga,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, um andstæðing kvöldsins, Dundalk frá Írlandi, í samtali við Vísi.

Staðan eftir fyrri leikinn er 1-1 en Steven Lennon skoraði útivallarmarkið sem gæti reynst FH svo dýrmætt.

Sjá einnig: Heimir: Þurfum að taka frumkvæðið í leiknum

Hafnfirðingum dugir því markalaust jafntefli í leiknum í kvöld til að komast áfram í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. En breytir það uppleggi FH-inga á einhvern hátt?

„Já, það breytir því að einhverju leyti. Hefðum við tapað leiknum hefðum við kannski verið tilneyddir til að koma framar á völlinn,“ sagði Davíð.

„Okkur hefur liðið ágætlega þegar við getum legið aðeins til baka í Evrópuleikjum og sótt hratt og refsað liðum þannig. Auðvitað var þetta mark sem Lennon skoraði mjög mikilvægt.“

FH-ingar eru með á öllum vígstöðvum, í efsta sæti Pepsi-deildarinnar, komnir í undanúrslit í Borgunarbikarnum og slái þeir Dundalk út bíða þeirra a.m.k. fjórir Evrópuleikir til viðbótar.

Sjá einnig: Tugir milljóna undir hjá FH gegn Dundalk í Krikanum í kvöld

Álagið er því talsvert en Davíð segir að þetta sé það sem leikmenn vilji, æfa minna og spila meira.

„Ég held að flestir knattspyrnumenn séu sammála um að það er mun skemmtilegra að spila leiki en að vera á æfingasvæðinu. Þetta er akkúrat það sem við viljum og við ætlum að gera allt sem við getum til að fá fjóra Evrópuleiki í viðbót,“ sagði Davíð.

Leikur FH og Dundalk hefst klukkan 19:15 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Þá verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Hvít-Rússarnir bíða FH-inga slái FH Dundalk út á morgun

Hvít-rússneska liðið BATE Borisov tryggði sér í kvöld sæti í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildarinnar en liðið mætir þar sigurvegaranum úr viðureign Íslandsmeistara FH og Dundalk sem fer fram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×