Liðin sem slógu íslensku liðin Val og Breiðablik út úr fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar komust bæði áfram í þriðju umferðina í kvöld.
Lettarnir úr Jelgava unnu flottan 3-0 sigur á slóvakísku liði en danska liðið Bröndby þurfti vítakeppni til að slá út skoska liðið Hibernian.
Danirnir í Bröndby unnu Valsmenn samanlagt 10-1 í fyrstu umferðinni en sigurinn í kvöld var talsvert tæpari og þurfti 120 mínútur og tíu vítaspyrnur til að fá fram sigurvegara.
Bröndby hafði unnið Hibernian 1-0 í fyrri leiknum í Skotlandi en Skotarnir unnu 1-0 á Bröndby Stadium í kvöld. Því varð að framlengja leikinn og þar var ekkert skorað.
Úrslitin réðust því í vítakeppni. Skotarnir klikkuðu á fyrstu vítaspyrnu sinni og fengu á endanum ekki að taka fimmtu og síðustu spyrnu sína. Danirnir skoruðu nefnilega úr öllum fimm vítum sínum og tryggðu sér sæti í næstu umferð.
Bröndby mætir þýska liðinu Hertha BSC frá Berlín í þriðju umferðinni.
Jelgava sló Breiðablik út úr fyrstu umferðinni 5-4 samanlagt þar sem Blikar fóru illa að ráði sínu. Blikarnir virðast hafa verið mun erfiðari andstæðingur en Slovan Bratislava frá Slóvakíu.
Jelgava og Slovan Bratislava gerðu reyndar markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Slóvakíu en Jelgava vann 3-0 sigur í seinni leiknum í kvöld.
Glebs Kluskins skoraði fyrsta markið úr vítspyrnu á 27. mínútu, Boriss Bogdaskins bætti við öðru marki á 48. mínútu og Olegs Malasenoks skoraði síðan síðasta markið á 85.mínútu.
Verðlaunin hjá Lettunum fyrir sigurinn í kvöld er að mæta Beitar Jerusalem frá Ísrael í þriðju umferð forkeppninnar.
Valsbanarnir og Blikabanarnir bruna áfram í Evrópukeppninni
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið





Jón Otti körfuboltadómari fallinn frá
Körfubolti

Svona var blaðamannafundur Snorra
Handbolti


Kvartar undan boltanum eftir tuttugu skot framhjá
Enski boltinn

