Allir eru unglingar Bergur Ebbi Benediktsson skrifar 22. júlí 2016 10:00 Einu sinni voru unglingar ekki til. Það voru til börn og svo urðu þau fullorðin. Litlir strákar léku sér með byssur og svo fengu þeir byssu, voru kannski orðnir hermenn fimmtán ára. Það var enginn umhugsunartími. Þarf ég að fara í þetta stríð? Vil ég vera hermaður? Til hvers eru stríð? Get ég ekki farið í lýðháskóla og fundið sjálfan mig fyrst? Og stelpur? Jú, þær voru litlar stelpur og svo voru þær frúr – búið að ráðstafa þeim eins og varningi og börnin stundum orðin þrjú eða fjögur fyrir tvítugt. Enginn tími til að hugsa um sjálfsmynd, langanir eða þrár. Unglingamenning varð til eftir síðara stríð. Það ríkti friður og efnahagsleg velmegun á Vesturlöndum. Amerísk unglingamenning í frumbernsku sinni er haldin ævintýraljóma. Sweet Sixteen, rjómatertur, glymskrattar, sígarettur, blæjubílar, vanillusjeikar og löng, heit sumarkvöld með engisprettuhljóðum og hugleiðingum um framtíðina: skyldi ég finna þann eina rétta, ætti ég að skrá mig í háskóla, er lífið í borginni betra?Fermingarkynfræðsla Líklega var þetta aldrei svona dísætt á Íslandi. Unglingamenning kom seinna og var harkalegri. Og í jeppa oft vil skreppa. Blautur lopi og brennivín. En unglingamenning var það samt. Þegar ég sjálfur kom til sögunnar var þetta orðið hluti af samfélagsgerðinni. Unglingsárin voru stofnanavædd. Í 10-12 ára bekk voru sérstakar kennslustundir í skólanum þar sem við vorum undirbúin fyrir óróatímabilið sem fyrir höndum var. Lífsleikni, jafningafræðsla, tjáning og kynfræðsla. Fermingarfræðslan fjallaði minna um Jesú en meira um leitina að sjálfsmynd. En það skiptir engu hvað skandinavíska velferðin undirbýr mann mikið. Alltaf kemur lífið manni á óvart. Unglingsárin hættu aldrei. Ég varð nítján svo tvítugur og þarna átti þetta að vera búið og óvissan á enda. Nú átti efasemdunum að vera lokið og ég gæti hætt að leita að fyrirmyndum í lífinu enda orðinn slík sjálfur. Að vera fullorðinn snýst um að bera ábyrgð á vali sínu og smekk, að þurfa ekki sífellt að skima í kringum sig og sjá hvernig hinir gera það. Það eru bara unglingar sem gera svoleiðis.Veit einhver svörin? En mér finnst ég enn vera að skima í kringum mig. Mér finnst reyndar langflestir vera að skima í kringum sig. Kveða upp hálfar hugsanir og bíða eftir að aðrir botni. Sérhver athugasemd sem sett er fram á netinu, hvort sem er við frétt eða skoðun, vitnar um óvissu þess sem hana smíðar. Væri vissan til staðar væri hún ekki sett á borð alþjóðar. Svona hegðum við okkur nú. Við tökum myndir af því sem er undarlegt í umhverfinu og fáum álit vina og ættingja áður en við kveðum upp dóm. Mér finnst reyndar ekkert að þessu. Það er allt í lagi að fá leiðsögn þó maður sé fullorðinn, vera óöruggur og afsakandi, gera mistök og læra af þeim. Að vita ekkert hvað er að vera karl í krapinu, hafa efasemdir um hvað manngæska er, skilja varla hugmyndir um tryggð við föðurlandið og hvað þá auðmýkt gagnvart alsjáandi guði eða skapara. Ein stærsta þverstæða okkar tíma er sú að tillit til þarfa einstaklingsins leiðir til útrýmingar hans. Að fá tíma til mótunar eykur ekki sérkenni manns, það hvetur mann þvert á móti til mýktar og færri prinsippa, að fylgjast með öðrum og taka fleiri hugmyndir með í reikninginn við sérhverja ákvörðun. Rétt eins og unglingar gera. Hvað finnst svo sem venjulegum fullorðnum einstaklingi um heiminn sem hann lifir í? Hvað finnst venjulegum fullorðnum einstaklingi um kjarasamninga flugumferðarstjóra eða að sautján ára afganskur innflytjandi hafi drepið fólk með exi í lest í Þýskalandi? „Það kemur mér ekki við,“ segja sumir en samt eru allir að líta í kringum sig og sjá hvað hinum finnst því kannski skiptir það einmitt máli. En ég get sagt til huggunar að meira að segja Angela Merkel veit ekki hvað henni finnst. Hún strýkur hvorki talnaband né drekkur sveppate. Hún bara gerir eins og við öll. Lítur í kringum sig og sér hvað hinir eru með í nesti eða hvort málið sé að vera í lágum eða háum Converse-skóm í skólanum. Hún er líka unglingur og það er ekkert skammaryrði í mínum huga.Current mood Stóru línurnar eru að allir eru í leit að sjálfum sér. Sumir gata á sér nefið eða húðflúra sig, aðrir fara í ferðalag til Suðaustur-Asíu, sumir drekka ógeðsdrykki og sumir eru kannski næstum því búnir að finna sína sjálfsmynd en flestir eiga eftir að skerpa hana aðeins. Og þess vegna er aldrei nóg að taka eina sjálfsmynd. Hún er ekki fullkomin. Það þarf að taka aðra, með aðeins meiri stút, hárið öðruvísi, prófa aðra birtu. Bara eina sjálfsmynd í viðbót. Current mood. Svo föstudagssjálfan, mánudagssjálfan og throwback Thursday til að fá einnig álit annarra á því hvernig sjálfsmyndarleitin hafi gengið undanfarin ár. Hafa svona greinar verið skrifaðar áður? Fyrir löngu? Er þetta svipað og hugmyndir rómantískra skálda eða bítnikka um hina eilífu leit að sjálfsmynd? Nei, gott fólk. Þetta er öðruvísi. Tæknin hefur breytt okkur. Það eru engir megin vegvísar lengur, enginn kóði, engin lögmál. Það þarf enginn leir að harðna. Siðferði heimsins er í dag fljótandi kerfi með sífelldum leiðréttingum og aðfinnslum, böggi, hrindingum og óvissu. Heimurinn er unglingagangur. Allir sítengdir, með augun gjóandi í allar áttir, að sjá hvað hinum finnst og hvort ástæða sé til að hneykslast eða dásama. Upp er runninn tími hins mjúka leirs, mótunarástands án enda. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Sjálfræðissvipting þjóðar Ægir Örn Arnarson Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun
Einu sinni voru unglingar ekki til. Það voru til börn og svo urðu þau fullorðin. Litlir strákar léku sér með byssur og svo fengu þeir byssu, voru kannski orðnir hermenn fimmtán ára. Það var enginn umhugsunartími. Þarf ég að fara í þetta stríð? Vil ég vera hermaður? Til hvers eru stríð? Get ég ekki farið í lýðháskóla og fundið sjálfan mig fyrst? Og stelpur? Jú, þær voru litlar stelpur og svo voru þær frúr – búið að ráðstafa þeim eins og varningi og börnin stundum orðin þrjú eða fjögur fyrir tvítugt. Enginn tími til að hugsa um sjálfsmynd, langanir eða þrár. Unglingamenning varð til eftir síðara stríð. Það ríkti friður og efnahagsleg velmegun á Vesturlöndum. Amerísk unglingamenning í frumbernsku sinni er haldin ævintýraljóma. Sweet Sixteen, rjómatertur, glymskrattar, sígarettur, blæjubílar, vanillusjeikar og löng, heit sumarkvöld með engisprettuhljóðum og hugleiðingum um framtíðina: skyldi ég finna þann eina rétta, ætti ég að skrá mig í háskóla, er lífið í borginni betra?Fermingarkynfræðsla Líklega var þetta aldrei svona dísætt á Íslandi. Unglingamenning kom seinna og var harkalegri. Og í jeppa oft vil skreppa. Blautur lopi og brennivín. En unglingamenning var það samt. Þegar ég sjálfur kom til sögunnar var þetta orðið hluti af samfélagsgerðinni. Unglingsárin voru stofnanavædd. Í 10-12 ára bekk voru sérstakar kennslustundir í skólanum þar sem við vorum undirbúin fyrir óróatímabilið sem fyrir höndum var. Lífsleikni, jafningafræðsla, tjáning og kynfræðsla. Fermingarfræðslan fjallaði minna um Jesú en meira um leitina að sjálfsmynd. En það skiptir engu hvað skandinavíska velferðin undirbýr mann mikið. Alltaf kemur lífið manni á óvart. Unglingsárin hættu aldrei. Ég varð nítján svo tvítugur og þarna átti þetta að vera búið og óvissan á enda. Nú átti efasemdunum að vera lokið og ég gæti hætt að leita að fyrirmyndum í lífinu enda orðinn slík sjálfur. Að vera fullorðinn snýst um að bera ábyrgð á vali sínu og smekk, að þurfa ekki sífellt að skima í kringum sig og sjá hvernig hinir gera það. Það eru bara unglingar sem gera svoleiðis.Veit einhver svörin? En mér finnst ég enn vera að skima í kringum mig. Mér finnst reyndar langflestir vera að skima í kringum sig. Kveða upp hálfar hugsanir og bíða eftir að aðrir botni. Sérhver athugasemd sem sett er fram á netinu, hvort sem er við frétt eða skoðun, vitnar um óvissu þess sem hana smíðar. Væri vissan til staðar væri hún ekki sett á borð alþjóðar. Svona hegðum við okkur nú. Við tökum myndir af því sem er undarlegt í umhverfinu og fáum álit vina og ættingja áður en við kveðum upp dóm. Mér finnst reyndar ekkert að þessu. Það er allt í lagi að fá leiðsögn þó maður sé fullorðinn, vera óöruggur og afsakandi, gera mistök og læra af þeim. Að vita ekkert hvað er að vera karl í krapinu, hafa efasemdir um hvað manngæska er, skilja varla hugmyndir um tryggð við föðurlandið og hvað þá auðmýkt gagnvart alsjáandi guði eða skapara. Ein stærsta þverstæða okkar tíma er sú að tillit til þarfa einstaklingsins leiðir til útrýmingar hans. Að fá tíma til mótunar eykur ekki sérkenni manns, það hvetur mann þvert á móti til mýktar og færri prinsippa, að fylgjast með öðrum og taka fleiri hugmyndir með í reikninginn við sérhverja ákvörðun. Rétt eins og unglingar gera. Hvað finnst svo sem venjulegum fullorðnum einstaklingi um heiminn sem hann lifir í? Hvað finnst venjulegum fullorðnum einstaklingi um kjarasamninga flugumferðarstjóra eða að sautján ára afganskur innflytjandi hafi drepið fólk með exi í lest í Þýskalandi? „Það kemur mér ekki við,“ segja sumir en samt eru allir að líta í kringum sig og sjá hvað hinum finnst því kannski skiptir það einmitt máli. En ég get sagt til huggunar að meira að segja Angela Merkel veit ekki hvað henni finnst. Hún strýkur hvorki talnaband né drekkur sveppate. Hún bara gerir eins og við öll. Lítur í kringum sig og sér hvað hinir eru með í nesti eða hvort málið sé að vera í lágum eða háum Converse-skóm í skólanum. Hún er líka unglingur og það er ekkert skammaryrði í mínum huga.Current mood Stóru línurnar eru að allir eru í leit að sjálfum sér. Sumir gata á sér nefið eða húðflúra sig, aðrir fara í ferðalag til Suðaustur-Asíu, sumir drekka ógeðsdrykki og sumir eru kannski næstum því búnir að finna sína sjálfsmynd en flestir eiga eftir að skerpa hana aðeins. Og þess vegna er aldrei nóg að taka eina sjálfsmynd. Hún er ekki fullkomin. Það þarf að taka aðra, með aðeins meiri stút, hárið öðruvísi, prófa aðra birtu. Bara eina sjálfsmynd í viðbót. Current mood. Svo föstudagssjálfan, mánudagssjálfan og throwback Thursday til að fá einnig álit annarra á því hvernig sjálfsmyndarleitin hafi gengið undanfarin ár. Hafa svona greinar verið skrifaðar áður? Fyrir löngu? Er þetta svipað og hugmyndir rómantískra skálda eða bítnikka um hina eilífu leit að sjálfsmynd? Nei, gott fólk. Þetta er öðruvísi. Tæknin hefur breytt okkur. Það eru engir megin vegvísar lengur, enginn kóði, engin lögmál. Það þarf enginn leir að harðna. Siðferði heimsins er í dag fljótandi kerfi með sífelldum leiðréttingum og aðfinnslum, böggi, hrindingum og óvissu. Heimurinn er unglingagangur. Allir sítengdir, með augun gjóandi í allar áttir, að sjá hvað hinum finnst og hvort ástæða sé til að hneykslast eða dásama. Upp er runninn tími hins mjúka leirs, mótunarástands án enda.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun