Fimm greinar fóru fram á fimmta og síðasta deginum í einstaklingskeppninni þar af þrjár þeirra í einum hnapp í upphafi. Það var mikil spenna í loftinu enda ekki mörg stig á milli efstu kvenna í einstaklingskeppninni.
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir voru í baráttunni um sigurinn alveg eins og í fyrra. Niðurstaðan var sú sama og í fyrra. Katrín Tanja vann en Ragnheiður Sara varð að sætta sig við þriðja sætið.
Bein útsending var frá keppninni á Youtube-síðu Crossfit Games og eru allar útsendingarnaer frá fimmta deginum aðgengilegar hér að neðan. Hér fyrir neðan má því sjá það þegar Ísland eignaðist hraustustu konu heims í fjórða sinn. Það er hægt að spóla til baka í hverju myndbandi fyrir sig.
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir voru ekki þær einu frá Íslandi sem voru að keppa því Annie Mist Þórisdóttir (13. sæti) og Þuríður Erla Helgadóttir (19.sæti) voru líka meðal tuttugu efstu. Þá endaði Björgvin Karl Guðmundsson í áttunda sæti í karlaflokki, Haraldur Holgersson endaði í áttunda sæti í flokki 16-17 ára drengja og lið Crossfit XY endaði í 34. sæti.