Sport

Arna Stefanía og Ásdís með þrjú gull á MÍ um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Stefanía Guðmundsdóttir bætti sig í öllum þremur gullgreinunum sínum.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir bætti sig í öllum þremur gullgreinunum sínum. Vísir/Anton
Ásdís Hjálmsdóttir vann þrjár kastgreinar og Arna Stefanía Guðmundsdóttir sýndi fjölhæfni sína á hlaupabrautinni á 90. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fór fram um helgina á Akureyri.

Arna Stefanía sigraði í 200 og 400 metra hlaupi og í 100 metra grindahlaupi og náði sínum besta árangri í öllum þremur greinunum. 400 metra hlaupið hjá henni var bæði aldursflokkamet og mótsmet.

Kolbeinn Höður Gunnarsson vann bæði spretthlaupin hjá körlunum, 100 metra hlaupið og 200 metra hlaupið, en hann kom í mark í 100 metra hlaupinu á 10,61 sekúndum. Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason vann kringlukastið örugglega og Vigdís Jónsdóttir úr FH setti mótsmet í sleggjukasti þegar hún kastaði 57,11 metra.

FH hlaut bæði flest verðlaun (32) og flest gull (17) en ÍR fékk 14 gull og 28 verðlaun alls. FH vann stigakeppni félaga og karlakeppnina en ÍR varð efst í kvennakeppninni.

Arna Stefanía Guðmundsdóttir átti tvö bestu afrek mótsins samkvæmt stigatöflu IAAF en hún fékk 1.053 stig fyrir 400 metra hlaup kvenna og 1.036 stig fyrir 100 metra grindarhlaup. 200 metra hlaup hennar varð síðan fjórði besti árangur mótsins á eftir hlaupi Hrafnhildar Eirar R. Hermóðsdóttur í 100 metra hlaupi kvenna.

Kolbeinn Höður Gunnarsson fékk flest stig hjá körlunum fyrir 100 metra hlaup karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×