Körfubolti

Skrifaði undir samning en lagði NBA-skóna svo strax upp á hillu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amar'e Stoudemire.
Amar'e Stoudemire. Vísir/Getty
Amar'e Stoudemire hefur spilað sinn síðasta leik í NBA-deildinni í körfubolta en það vakti athygli hvernig hann hætti.

Stoudemire spilaði með Dallas Mavericks og Miami Heat eftir að hann yfirgaf New York Knicks á miðju 2014-15 tímabilinu en hann vildi ekki hætta sem leikmaður Miami Heat.

Stoudemire fékk því forráðamenn New York Knicks til að gera við sig samning en aðeins til þess að hann gæti hætt sem leikmaður New York Knicks liðsins.

„Ég vil þakka herra Dolan, Phil [Jackson] og Steve [Mills] fyrir að semja við mig svo að ég geti hætt sem leikmaður New York Knicks," sagði Amar'e Stoudemire.

Amar'e Stoudemire er reyndar bara 33 ára gamall en hann hefur verið mikið meiddur undanfarin ár og því ekki skilað þeim tölum sem menn bjuggust við. Það er ekki útilokað að hann reyni fyrir sér í löndum eins og Kína enda hefur hann fengið myndarleg tilboð þaðan.

Amar'e Stoudemire spilaði 846 leiki í NBA-deildinni á fjórtán tímabilum og var með 18,9 stig og 7,8 fráköst að meðaltali í leik.

„Ég kom til New York árið 2010 til að hjálpa til við að rífa þetta félag upp og við gerðum það. Carmelo [Anthony], Phil og Steve hafa síðan haldið þeirri för áfram og miðað við þá leikmenn sem komu í sumar þá ætti liðið að komast aftur í úrslitakeppnina á komandi tímabili. Ferillinn hefur farið með mig til annarra staða en hjarta mitt hefur alltaf átt heima í Stóra Eplinu. Einu sinni Knicksari alltaf Knicksari," sagði Amar'e Stoudemire.

Amar'e Stoudemire sló í gegn hjá Phoenix Suns þar sem hann spilað átta fyrstu tímabilin sín í NBA-deildinni. Hann stökk síðan á risasamning frá New York sumarið 2010. Hann átti mjög gott fyrsta tímabil með liðinu (25,3 stig og 8,2 fráköst). Hann náði ekki alveg að fylgja því eftir og þar spiluðu meiðslin stóra rullu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×