Erlent

Þurfa að kjósa á ný í Austurríki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Norbert Hofer fær annan séns.
Norbert Hofer fær annan séns. Fréttablaðið/EPA
Hæstiréttur Austurríkis ógilti í gær forsetakosningar landsins sem fram fóru 22. maí þessa árs. Heinz-Christian Strache, formaður Frelsisflokksins, hafði kært framkvæmd kosninganna vegna meðhöndlunar utankjörfundaratkvæða og var hæstiréttur sammála um að kosningalög hefðu verið brotin. Frambjóðandi Frelsisflokksins, Norbert Hofer, tapaði í kosningunum í maí fyrir frambjóðanda Græningja, Alexander Van der Bellen, með undir eins prósentustigs mun.

Fráfarandi forseti, Heinz Fischer, mun láta af embætti þótt kosningar hafi ekki farið fram og munu þrír fulltrúar þingsins, Hofer þeirra á meðal, gegna embættisskyldum forseta fram að kosningum. Búist er við því að kosið verði á ný annaðhvort í september eða október.

Kæra Strache gekk út á að utankjörfundaratkvæði hefðu verið opnuð fyrr en mátti og sum þeirra talin af fólki sem ekki hafði leyfi til. Þá sagðist hann hafa heimildir fyrir því að sumir kjósendur hafi verið erlendir ríkisborgarar og aðrir undir sextán ára aldri og því ekki á kjörskrá.

Hæstiréttur féllst ekki á það og sagði einnig ósannað að talning hefði farið fram með ólöglegum hætti.

Ef Hofer vinnur kosningarnar í haust yrði hann fyrsti þjóðernishyggjumaðurinn til að verða kjörinn forseti í Evrópusambandsríki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×