Fótbolti

Barcelona greiðir sekt vegna Neymar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Neymar fagnar í leik með Barcelona.
Neymar fagnar í leik með Barcelona. vísir/getty
Barcelona hefur samþykkt að greiða 965 milljónir króna í sekt út af skattamáli er tengdist kaupum félagsins á brasilíska landsliðsmanninum Neymar.

Forseti Barcelona, Josep Maria Bartomeu, segir að það hafi verið gerð mistök með skipulagningu á greiðslum á sköttum er hann var keyptur.

Barcelona var ákært fyrir skattsvik en hafnaði alltaf öllum ásökunum. Neymar og faðir hans eru einnig í rannsóln vegna málsins. Þeir neita öllum ásökunum rétt eins og félagið sem hefur þó viðurkennt mistök.

„Það var betra að samþykkja þetta samkomulag en að halda áfram með málið í einhverri óvissu. Þetta hefði getað dregist til lengri tíma,“ sagði Bartomeu.

Barcelona sagðist hafa greitt 7,5 milljarða fyrir Neymar er hann var keyptur frá Santos árið 2013. Foreldrar Neymar fengu 5,5 milljarða en Santos fékk tvo.

Þeir sem rannsökuðu málið sögðu að Barcelona hefði í raun greitt 11,5 milljarða fyrir leikmanninn og að Barcelona hefði leynt raunverulegu kaupverði leikmannsins til þess að spara sér skattgreiðslur.

Þetta er ekki eina skattamálið sem Neymar er flæktur í því yfirvöld í Brasilíu eru einnig að rannsaka hann fyrir skattsvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×