Körfubolti

Steph Curry afrekaði það sem Jordan náði aldrei

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bestur. Það er bara þannig.
Bestur. Það er bara þannig. vísir/getty
Stephen Curry, leikstjórnandi NBA-meistara Golden State Warriors, var í dag útnefndur besti leikmaður deildarinnar, MVP, annað árið í röð.

Curry er fyrsti maðurinn í sögunni sem fær 100 prósent atkvæða frá þeim 131 einum íþróttafréttamanni og sérfræðingi sem er með atkvæðisrétt þannig valið að þessu sinni er sögulegt.

Þetta er eitthvað sem mönnum eins og Michael Jordan, Magic Johnson, Larry Bird, Shaquille O'neal og LeBron James tókst aldrei að afreka. James og Shaq komust þó næst því þegar allir nema einn kusu þá besta.

Curry var magnaður á leiktíðinni og kom mörgum á óvart að hann væri ekki líka kosinn sá leikmaður sem tók mestu framförum. Hann hækkaði sig um 6,3 stig að meðaltali í leik, bætti sig í fráköstum, stolnum boltum og skotnýtingu og skoraði 100 fleiri þriggja stiga körfur en í fyrra þegar hann bætti NBA-metið.

Með sjóðheitan Curry vann Golden State 73 leiki og bætti met Chicago Bulls frá 1996 sem vann 72 leiki það tímabilið.

Í öðru sæti í kosningunni var Kawhi Leonard, leikmaður San Antonio Spurs. Hann fékk þremur atkvæðum meira en LeBron James sem varð þriðji.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×