Átta árum síðar var Davíð orðinn borgarstjóri og gegndi hann því embætti til ársins 1991 þegar hann varð forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Sama ár var hann kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi en hann bauð sig fram gegn sitjandi formanni, Þorsteini Pálssyni, og hafði nauman sigur.
Enginn hefur verið forsætisráðherra lengur en Davíð en hann lét af því embætti árið 2004 og flutti sig yfir í utanríkisráðuneytið. Þar var hann í eitt ár þar sem hann tók við stöðu seðlabankastjóra árið 2005. Segja má að fjórum árum síðar hafi hann verið hrakinn úr Seðlabankanum í kjölfar efnahagshrunsins en hann var ekki lengi atvinnulaus þar sem hann settist í ritstjórastól Morgunblaðsins haustið 2009. Þar situr hann enn en er farinn í sumarleyfi til að sinna forsetaframboðinu.
Í tilefni af framboði Davíðs til forseta hefur Vísir tekið saman lista yfir nokkur eftirminnileg atvik frá ferli hans en listinn er langt því frá tæmandi.

Borgarfulltrúum Kvennaframboðsins blöskruðu ummæli borgarstjórans og mættu þær í kjólum með kórónu og borða fegurðardrottninga á næsta fund borgarstjórnar til að mótmæla því sem þær sögðu karlrembu Davíðs. Borgarstjórinn var ekki hrifinn af uppátækinu og kvaðst aldrei hafa upplifað annað eins á sínum 11 árum í borgarstjórn.

„Ég studdi Þorstein til formennsku í flokknum 1983, en ég man hvað mér brá, þegar hann lýsti því yfir strax um kvöldið eftir formannskjörið að hann myndi ekki sækjast eftir setu í ríkisstjórninni, sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að. Það kostaði að mínu mati alls konar vandræðagang og vitleysur. Svo urðu Albertsmálin flokknum erfið og þegar Þorsteinn hafði tekið að sér forsætið í þriggja flokka ríkisstjórn, þá sprengdu samstarfsmennirnir hana í beinni sjónvarpsútsendingu og Sjálfstæðisflokknum var fleygt á dyr. [...] Sjálfstæðisflokkurinn var í miklum hremmingum sem mér fundust algjörlega óþolandi fyrir stærsta flokk landsins.“

Bermúdaskálin árið 1991: Íslendingar urðu heimsmeistarar í bridds árið 1991 og hlutu því hin eftirsóttu verðlaun Bermúdaskálina. Eins og venja er þegar Íslendingar gera það gott í útlöndum var vel tekið á móti heimsmeisturunum í Leifsstöð en þar vakti ræða Davíðs Oddssonar forsætisráðherra ekki hvað síst athygli. Hann skálaði auðvitað fyrir heimsmeisturunum:
„Við skulum rísa á fætur og segja ekki bara skál, við skulum segja Bermúdaskál.“
Hér að neðan má sjá umfjöllun úr áramótaannál Stöðvar 2 þar sem fjallað var um heimsmeistarana í bridds og sjá má Davíð skála fyrir þeim:
Einkavæðing bankanna árið 2002: Einkavæðing ríkisbankanna tveggja árið 2002 er án efa ein umdeildasta aðgerð sem Davíð Oddsson réðst í á stjórnmálaferli sínum. Nokkuð ítarlega er fjallað um einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans í Rannsóknarskýrslu Alþingis en Samson-hópurinn sem feðgarnir Björólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson fóru fyrir keypti 45,8 prósenta hlut í Landsbankanum og S-hópurinn, undir forystu Ólafs Ólafssonar og Finns Ingólfssonar keypti jafnstóran hlut í Búnaðarbankanum.

Þessi áhersla stjórnvalda hafi orðið til þess „að stjórnvöld hafi frá og með áliðnu sumri 2002 í vaxandi mæli látið pólitísk markmið um að ljúka einkavæðingu bankanna sem slíkri hafa forgang gagnvart þeim faglegu markmiðum sem áður höfðu verið sett fram og gengið hafði verið út frá í söluferlinu fram að þeim tíma,“ eins og segir í 6. bindi Rannsóknarskýrslunnar.
Íraksstríðið árið 2003: Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra lýstu árið 2003 yfir stuðningi Íslands við áform Bandaríkjamanna, Breta og Spánverja um að hefja stríð gegn Saddam Hussein í Írak. Þessi stuðningsyfirlýsing ráðherranna vakti hörð viðbrögð í samfélaginu en ákvörðun þeirra um að styðja við innrás í Írak var ekki borin undir utanríkismálanefnd Alþingis.
Vildu Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, meina að þingsköp hefðu verið brotin þar sem málið hefði ekki verið borið undir utanríkismálanefnd. Þá var þjóðin andvíg því að vera á lista „hinna staðföstu þjóða“ en samkvæmt skoðanakönnun sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins þann 24. mars 2003, nokkrum dögum eftir að stríðið hófst, voru 76 prósent þjóðarinnar andvíg stuðningi Íslands við stríðið.

Frumvarp Davíðs snerist í grunninn um það að takmarka eignarhald á fjölmiðlum. Frumvarpið vakti miklar og harðar deilur í þjóðfélaginu. Þannig var settur af stað undirskriftalisti þar sem Ólafur Ragnar var hvattur til þess að synja lögunum staðfestingar og skoðanakönnun sem birtist í Fréttablaðinu sýndi að 77 prósent þjóðarinnar voru andvíg frumvarpinu.
Þegar Ólafur Ragnar gerði forsætisráherra afturreka með frumvarpið á Bessastöðum vísaði hann meðal annars í þessar hörðu deildur og sagði að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar í málinu:
„Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.“

Seðlabankinn var einn af þeim stöðum í borginni þar sem fundað var nánast stöðugt um efnahagsástandið í aðdraganda þess að Glitnir var þjóðnýttur þann 29. september 2008 og neyðarlögin voru sett viku seinna.
Þann sama dag, 6. október, veitti Seðlabankinn Kaupþingi 500 milljóna evra neyðarlán en tæplega helmingur lánsins tapaðist. Ekkert liggur fyrir um það hvernig það lán var veitt en um nánast allan nettó gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans var að ræða.
Davíð Oddsson hélt því fram í Reykjavíkurbréfi í fyrra að Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra hefði tekið ákvörðun um að veita lánið en á móti hefur Már Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóri, sagt að ábyrgðin varðandi slíkt lán liggi alltaf hjá Seðlabankanum sjálfum. Ekkert liggur því í raun fyrir um það hvernig ákvörðunin um lánið var tekin en Geir hefur ekki viljað að upptaka af símtali þeirra Davíðs varðandi lánið verði gerð opinber.
Með hvarfi Davíðs úr stól seðlabankastjóra má segja að hann hafi endanlega farið í frí frá stjórnmálunum. Bandaríska tímaritið Time sá meðal annars ástæðu til þess að rita örlítil eftirmæli um Davíð og setti hann á lista með 24 öðrum einstaklingum sem kenna mátti um efnahagshrunið árið 2008.
Ritstjóri Morgunblaðsins árið 2009: Davíð tók við starfi ritstjóra Morgunblaðsins eftir að hann kvaddi Seðlabankann. Hann gegnir því enn er nú í sumarleyfi til að sinna forsetaframboðinu. Eins og margt af því sem Davíð hefur fengist við hafa störf hans hjá Morgunblaðinu ekki verið óumdeild enda hafa margir viljað meina að hann hafi aðallega fengist við það að endurrita söguna í stóli ritstjóra. Þá hefur hann verið iðinn við að senda mönnum tóninn í Reykjavíkurbréfum blaðsins.
Nú er penni ritstjórans hins vegar kominn á hilluna en hvort að næsta bréf Davíðs verði sent úr Hádegismóum eða af Bessastöðum kemur í ljós þann 25. júní.