Kevin Love, leikmaður Cleveland, mátti ekkert vera að því að tala við fjölmiðla eftir að hans lið hafði sópað Atlanta í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.
„Game of Thrones er að byrja og ég er að reyna að drífa mig heim svo ég missi ekki af þættinum. Jon Snow er mættur aftur,“ sagði Love við blaðamenn en línuleg dagskrá er honum greinilega enn að skapi.
Hann átti stórleik í 100-99 sigri Cleveland. Skoraði 27 stig og setti niður átta þriggja stiga skot.
Blaðamenn sýndu leikmanninum mikinn skilning og hleyptu honum út í bíl. Love var vonandi ánægður með þáttinn.

