Barcelona vann fyrri leikinn á Nývangi með tveimur mörkum gegn einu og því var ljóst að lærisveinar Diego Simeone þyrftu að skora a.m.k. eitt mark á Vicente Calderón í kvöld.
Atlético Madrid spilaði fullkominn varnarleik í leiknum og lokaði algjörlega á MSN-tríóið frábæra.
Antoine Griezmann kom Atlético Madrid yfir á 36. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Saúls Niguez frá hægri.
Staðan var 1-0 í hálfleik og allt fram á 88. mínútu þegar heimamenn fengu vítaspyrnu eftir að Andrés Iniesta, fyrirliði Barcelona, handlék boltann innan vítateigs.
Griezmann fór á punktinn og skoraði framhjá Marc-André ter Stegen. Þetta var 29. mark Frakkans á tímabilinu.
Skömmu síðar átti Barcelona að fá víti þegar Gabi fékk boltann í höndina inni í vítateig en Nicola Rizzoli, dómari leiksins, dæmdi bara aukaspyrnu sem ekkert varð úr.
Börsungum tókst ekki að skora á þeim mínútum sem eftir voru og leikmenn Atlético Madrid fögnuðu fræknum sigri og sæti í undanúrslitunum.