Körfubolti

Nýtt nafn í 50-45-90 klúbb NBA í bókstaflegri merkingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Stephen Curry átti ótrúlegt tímabil í NBA-deildinni í körfubolta hvort sem litið er á frammistöðu hans sjálfs eða gengi liðs hans Golden State Warriors. Curry endurskrifaði söguna á báðum stöðum.

Curry skoraði 46 stig í nótt þegar Golden State Warriors bæti met Chicago Bulls frá 1995-96 með því að vinna sinn 73. leik á tímabilinu.

Meðal athyglisverðustu tölfræði Stephen Curry í deildarkeppninni er sú að hann varð með hittni sinni í vetur aðeins þriðji meðlimurinn í 50-45-90 klúbbi NBA-deildarinnar. Reyndar er sjá fjórði með hálfgerða aukaaðild.

Meðlimir í þeim klúbbi enda tímabilið með betri en fimmtíu prósent skotnýtingu, betri en 45 prósent þriggja stiga nýtingu og betri en 90 prósent vítanýtingu.

Stephen Curry skoraði 30,1 stig og gaf 6,7 stoðsendingar að meðaltali í 79 leikjum sínum með Golden State Warriors á þessu tímabili. Hann var með 50,4 prósent skotnýtingu, 45,4 prósent þriggja stiga nýtingu og 90,8 prósent vítanýtingu.

Curry skoraði 5,1 þriggja stiga körfu að meðaltali í leik eða 402 þrista í 79 leikjum. Enginn tók fleiri þriggja stiga skot og enginn í sögunni hefur verið nálægt því að hitti úr fleiri slíkum skotum.

Það sem er jafnvel skemmtilegra er að hingað til hafa allir meðlimirnir heitið Steve en það eru Steve Kerr, Steve Nash og svo Steve Novak sem er með aukaaðild.

Steve Novak var með 52,2 prósent skotnýtingu, 56,6 prósent þriggja stiga nýtingu og 100 prósent vítanýtingu með Dallas Mavericks og San Antonio Spurs tímabilið 2010-11 en tók aðeins 67 skot, 45 þriggja stiga skot og 8 víti. Hann náði því ekki lágmörkunum yfir fjölda skota.

Hinir tveir náðu hinsvegar nauðsynlegum lágmörkum til þess að fá fulla aðild að klúbbnum.

Steve Kerr var með 50,6 prósent skotnýtingu, 51,5 prósent þriggja stiga nýtingu og 92,9 prósent vítanýtingu í 82 leikjum með Chicago Bulls tímabilið 1995-96.

Steve Nash var með 50,4 prósent skotnýtingu, 47 prósent þriggja stiga nýtingu og 90,6 prósent vítanýtingu í 81 leik með Phoenix Suns tímabilið 2007-08.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×