Mikil óeining er innan herbúða franska 1. deildar liðsins Nantes sem íslenski landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson spilar með og samkvæmt nokkrum frönskum miðlum sem fjalla um málið er hann í miðju stormsins.
Á vefsíðunni ouest-france.fr er sagt að sumir leikmenn Nantes neiti að spila framar ef Kolbeinn heldur áfram að vera í liðinu, en hann hefur ekki náð að standa undir væntingum og aðeins skorað þrjú mörk í 26 leikjum.
Það er þó ekki frammistaða hans, samkvæmt frönsku miðlunum, sem er málið heldur er haldið fram á sama miðli að hann eitri út frá sér í búningsklefanum og sé óvinsæll.
Franska dagblaðið 20 Minutes skrifar það sama og segir að búningsklefinn sé orðinn þreyttur á „dívunni Kolbeini Sigþórssyni“ eins og það er orðað í fréttinni.
Annar franskur vefmiðill, maxifoot.fr, heldur því svo fram að Kolbeinn sé að spara sig fyrir Evrópumótið og leggi sig því ekki allan fram fyrir Nantes, ekki einu sinni á æfingum.
Kolbeinn er ekki í leikmannahópi Nantes sem er að spila við Montpellier á heimavelli þegar þessi frétt er skrifuð. Á heimasíðu Nantes er sagt að Kolbeinn sé meiddur en ekki farið nánar út í meiðsli hans.
Óeiningin nær út fyrir Kolbein því þjálfarinn Michel Der Zakarian er á útleið og mun taka við Rennes í sumar. Samband hans við forseta félagsins, Waldermar Kita, hefur alls ekki verið gott að undanförnu eftir að Nantes losnaði úr félagaskiptabanni. Þetta kemur fram á ouest-france.fr.
Samkvæmt dagblaðinu 20 Minutes var Kolbeinn eitt af forgangsatriðum Kita á félagaskiptamarkaðnum síðasta sumar en haldið er fram að hann hafi ekki verið jafn ofarlega á óskalista þjálfarans.
Nantes er búið að tapa þremur leikjum í röð og hefur Kolbeinn byrjað nánast hvern einasta leik að undanförnu. Hann skoraði síðast mark 23. janúar í 2-2 jafntefli gegn Bordeaux.
